Erlent

Stefnir fyrirtæki Trump vegna lögfræðikostnaðar

Kjartan Kjartansson skrifar
Cohen þegar hann var á leið að bara vitni fyrir þingnefnd í síðustu viku.
Cohen þegar hann var á leið að bara vitni fyrir þingnefnd í síðustu viku. Vísir/EPA
Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta, hefur stefnt Trump-fyrirtækinu. Hann sakar fyrirtækið um samningsbrot þegar það hætti að endurgreiða honum vegna lögfræðikostnaðar um leið og hann byrjaði að vinna með saksóknurum í New York.

Í stefnunni heldur Cohen því fram að Trump-fyrirtækið hafi gert við hann samning um að greiða fyrir lögfræðiskostnað sem væri til kominn vegna starfa hans fyrir fyrirtækið. Ástæðan hafi verið fjöldi rannsókna, bæði Bandaríkjaþings og Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytisins. Þann samning hafi Trump-fyrirtækið rofið þegar Cohen byrjaði að vinna með saksóknurum.

Krefst Cohen einnig 1,9 milljóna króna af Trump-fyrirtækinu vegna sekta, bóta og eignaupptöku sem hann var dæmdur til að sæta eftir að hann játaði sig sekan um að hafa brotið kosningalög, svíkja undan skatti og ljúga að Bandaríkjaþingi, að því er segir í frétt New York Times.

Cohen hefur haldið því fram að Trump hafi skipað sér að greiða klámmyndaleikkona til að þegja um kynferðislegt samband þeirra í kosningabaráttunni árið 2016. Sú greiðsla var talin brot á kosningalögum. Hann hafi síðan logið fyrir þingnefnd um tilraunir Trump til að ná samningi um háhýsi í Moskvu til að vernda forsetann.

Lögmaður Trump-fyrirtækisins hafnar því alfarið að það skuldi Cohen.

Cohen var dæmdur í þriggja ára fangelsi vegna brota sinna. Hann á að hefja afplánun í maí. Í vitnisburði fyrir eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í síðustu viku lýsti Cohen Trump forseta sem „svikahrappi“ og „rasista“.


Tengdar fréttir

Varaði þingmenn við að fylgja Trump í blindni

Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Donald Trump Bandaríkjaforseta, sakaði hann um að hafa brotið lög sem forseti á maraþonfundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem stóð í rúma sjö tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×