Fótbolti

Piatek tryggði AC Milan fimmta sigurinn í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Piatek hefur reynst AC Milan afar vel eftir að hann kom frá Genoa.
Piatek hefur reynst AC Milan afar vel eftir að hann kom frá Genoa. vísir/getty
Pólski framherjinn Krzysztof Piatek tryggði AC Milan sigur á botnliði Chievo í ítölsku úrvalsdeildinni í kvöld. Lokatölur 1-2, Milan í vil.

Þetta var fimmti sigur Milan í deildinni í röð en liðið hefur verið á mikilli siglingu að undanförnu, ekki síst vegna frammistöðu Piatek.

Pólverjinn, sem kom frá Genoa í janúar, hefur nú skorað sex mörk í sjö deildarleikjum fyrir Milan. Alls hefur hann skorað 19 deildarmörk á tímabilinu. Hann er markahæstur í ítölsku deildinni ásamt Cristiano Ronaldo og Fabio Quagliarella.

Milan komst yfir á 31. mínútu í leiknum í kvöld þegar Lucas Biglia skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu. Perparim Hetemaj jafnaði fyrir Chievo tíu mínútum síðar. Staðan í hálfleik var 1-1.

Á 57. mínútu skoraði Piatek sigurmark Milan með skoti af stuttu færi eftir skalla Samu Castillejo.

Milan er í 3. sæti deildarinnar með 51 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×