Erlent

Japanskt geimfar skaut smástirni

Samúel Karl Ólason skrifar
Yuichi Tsuda. frá JAXA, sýndi blaðamönnum mynd af lendingarstað Hayabusa2 á Ryugu.
Yuichi Tsuda. frá JAXA, sýndi blaðamönnum mynd af lendingarstað Hayabusa2 á Ryugu. Vísir/AP
Japanska geimfarið Hayabusa2 lenti í nótt á smástirninu Ryugu, sem er í um 300 milljón kílómetra fjarlægð frá jörðinni og skaut það með sérstakri byssukúlu. Þetta hljómar ef til vill skringilega en vonast er til þess að þetta sérstaka byssuskot geti varpað ljósi á uppruna vatns og lífs á jörðinni. Ryugu er talið vera um 4,6 milljarða ára gamalt og mun það vera að mestu úr kolefni. Talið er að þar megi einnig finna vatn.

Í samtali við Guardian sagði vísindamaðurinn John Bridges að ástæða þess að verið væri að kanna Ryugu væri að smástirnið táknaði í raun upphafi sólkerfisins. Plánetur þess hefðu meðal annars orðið til úr smástirnum eins og Ryugu.



Með því að skjóta smástirnið gat geimfarið safnað ryki og öðru efni sem kastaðist upp við skotið. Upprunalega stóð til að taka sýni í fyrra en eftir að lendingarför sýndu fram á að yfirborð Ryugu var grýttara en talið var þurfti að undirbúa verkefnið betur.



Sjá einnig: Lentu vélmennum á smástirni



Hayabusa2 hefur verið á braut um Ryugu frá því í júní í fyrra en því var skotið á loft í byrjun desember 2014. Starfsmenn Geimvísindastofnunar Japan, JAXA, áætla að lenda geimfarinu aftur á jörðinni á næsta ári. Það mun verja næstu mánuðum á braut um Ryugu og safna frekari upplýsingum um smástirnið. Samkvæmt JAXA er Hayabusa2 við hestaheilsu, ef svo má að orði komast.

Hér má sjá kynningarmyndband JAXA um Hayabusa2, ferðalag geimfarsins og verkefnið sjálft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×