Innlent

Veðurfræðingur um óveðrið: „Allsvakalegar hamfarir“

Birgir Olgeirsson skrifar
Einn af þeim bílum þar sem rúður höfðu sprungið á veginum um Hvalsnes í morgun.
Einn af þeim bílum þar sem rúður höfðu sprungið á veginum um Hvalsnes í morgun. Björgunarfélag Hornafjarðar

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segist ekki hissa á þeim hamförum sem hafa átt sér stað í veðurofsanum í morgun þar sem rúður hafa sprungið í bílum og klæðning rifnað af vegum.

Veðrið var hvað verst á Suðausturlandi þar sem björgunarsveitarmenn höfðu í nógu að snúast í morgun. Strax um hálf fimm í morgun barst útkall vegna erlendra ferðamanna sem voru í vanda við Hvalsnes þar sem stormurinn var svo öflugur að möl tókst á loft og sprengdi rúður í bíl sem þeir höfðu á leigu.

Það sama gerðist síðan aftur upp úr klukkan níu en heilt yfir sprungu rúður í fimm bílum á veginum um Hvalnes.

Klæðning fauk einnig af veginum í Lóni við gangnamunna undir Almannaskarð.

Frá veginum að Almannaskarðsgöngum í Lónssveit. Björgunarfélag Hornafjarðar

Einar segir að suðvestanáttin hafi komið í loftköstum af fjallgarðinum sem skilur að Nes og Lón, líkast til ofan af skarðinu sjálfu.

„Hann var heldur ekki árennilegur strengurinn í fjallhæð um það leyti sem veður náði hámarki fyrir hádegi. 850 hPa vindurinn kl. 8 í morgun sést á litskrúðuga kortinu og má lesa þegar glöggt er skoðað 48-50 m/s í fjallahæð á þessum slóðum,“ skrifar Einar á Facebook-síðu sína.

Um svipað leyti náði meðalvindur í Papey um 41 metra á sekúndu að sögn Einars sem bætir við að það sé óskaplega mikill vindur á alla mælikvarða.

„Enda er maður ekki hissa í þessum hamförum að grjót hafi flogið í Hvalnesskriðum úr öllum áttum og að byggingarhlutar á Höfn jafnframt gefið sig, sbr. bræðslu Skinney-Þinganess.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.