Innlent

Fyrirhuguð lokun göngudeildar SÁÁ kemur ráðuneyti á óvart

Kjartan Kjartansson skrifar
Göngudeild SÁÁ á Akureyri verður lokað á morgun að óbreyttu.
Göngudeild SÁÁ á Akureyri verður lokað á morgun að óbreyttu. Vísir/Tryggvi
Heibrigðisráðuneytið segir ákvörðun SÁÁ um tímabundna lokun göngudeildar á Akureyri koma á óvart í ljósi þess að samningaviðræður standi nú yfir á milli Sjúkratrygginga Íslands og samtakanna um rekstur þjónustunnar.

Greint var frá því í gær að SÁA ætlaði að loka göngudeild sinni á Akureyri tímabundið í óákveðinn tíma frá og með morgundeginum, 1. mars. Formaður stjórnar SÁÁ vísaði til þess að ekkert hefði bólað á 150 milljón króna tímabundnu framlagi ríkisins til göngudeildarþjónustu og að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) gerðu kröfu um að fjármagnið færi í aðra þjónustu en þá sem samtökin veita nú.

Í tilkynningu á vefsíðu heilbrigðisráðuneytisins segir að fyrirhuguð lokun komi á óvart. Ríkinu sé skylt að gera samninga um þá heilbrigðisþjónustu sem ákveðið er að kaupa samkvæmt lögum um sjúkratryggingar. SÍ hafi annast gerð samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins.

Stofnunin hafi átt í viðræðum við SÁÁ um gerð þjónustusamnings vegna göngudeildarþjónustu á Akureyri. Síðast hafi verið fundað um hann á mánudag. Þar hafi komið fram hjá fulltrúa SÁÁ að samtökin ættu erfitt með að manna þjónustuna. Fulltrúi SÍ hafi ekki skilið það sem svo að SÁÁ vildi slíta viðræðunum eða loka starfseminni.

„Það er von ráðuneytisins að samningaviðræðum aðila verði haldið áfram og að ekki verði rof í þjónustunni á Akureyri meðan unnið er að gerð samnings um þjónustuna,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.


Tengdar fréttir

Göngudeild SÁÁ á Akureyri lokað: „Þetta er agalegt“

Göngudeild SÁÁ á Akureyri mun loka þann 1. mars næstkomandi í óákveðinn tíma. Ekkert bólar á 150 milljóni framlagi ríkisins til reksturs SÁÁ sem meðal annars var eyrnamerktur göngudeildarþjónustu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×