Innlent

Nokkrir slasaðir eftir þriggja bíla árekstur á Skeiðarársandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá slysstað í Öræfum. Myndin er úr vefmyndavél Vegagerðarinnar.
Frá slysstað í Öræfum. Myndin er úr vefmyndavél Vegagerðarinnar. Mynd/Vegagerðin
Lögreglunni á Suðurlandi barst tilkynning um árekstur þriggja bíla vestan við Skeiðarárbrú á fjórða tímanum í dag. Tólf voru í bílunum þremur og var sett af stað talsvert viðbragð af hálfu lögreglu og sjúkraflutningamanna. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna slyssins. 

Fyrstu viðbragðsaðilar náðu til fólksins á fimmta tímanum í dag en áverkar fólksins reyndust minniháttar við fyrstu sýn. Er talið að þrír til fjórir sem voru í þessum bílum hafi hlotið minniháttar skurði og aðrir kenndu sér meins en þó ekki alvarlega slasaðir.

Uppfært klukkan 17:08:

Í tilkynningu frá lögreglu á Suðurlandi segir að a.m.k. einn verði fluttur af slysstað með þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna „háorkuáverka“. Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar segir í samtali við Vísi að þyrlan hafi lagt af stað frá Reykjavík um fimmleytið og til standi að sækja tvo sjúklinga. Upplýsingar um tildrög slyssins liggja ekki fyrir.

Samkvæmt tilkynningu lögreglu má búast við töfum um nokkurn tíma á meðan vinna fer fram á vettvangi. Verður umferð um slysstað stýrt af lögreglu en mjög mikil hálka er á veginum og eru vegfarendur beðnir um að fara varlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×