Innlent

Hratt versnandi veður fram á kvöld

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Frá lokun þjóðvegar 1 við Vík.
Frá lokun þjóðvegar 1 við Vík.
Veður fer hratt versnandi fram á kvöld, einkum sunnan til á landinu, að því er fram kemur í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Víða er spáð stormi eða roki og má búast við að hviður geti farið allt upp í 40 metra á sekúndu á Kjalarnesi, við Hvalfjörð og í Öræfum.

Þá má jafnvel búast við staðbundnu ofsaveðri með hviðum allt upp undir 50 metra á sekúndu undir Eyjafjöllum og í Landeyjum. Í nótt á svo að draga úr veðurhæðinni.

Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við fréttastofu að veðrið nái hámarki um kvöldmatarleytið og verði svo í hámarki fram eftir kvöldi, nánast alveg til miðnættis.

„Síðan fer þetta nú að laga til muna í nótt þó að það lægi nú ekki alveg, þá er áfram hvassviðri eða stormur í þessu í nótt. Svo á morgun er nú skaplegra veður en svo má nefna að það er leiðindaveður á Vestfjörðum einnig þó að það sé ekki eins hvasst og hérna sunnan til,“ segir Hrafn.

Á vef Vegagerðarinnar er einmitt ábending frá veðurfræðingi um að mikill skafrenningi verði á fjallvegum á Vestfjörðum. Þá verður einnig mikill skafrenningur á Hellisheiði og Mosfellsheiði en mögulegt er að Hellisheiði og Þrengslum verði lokað vegna veðurs.

Þá er búið að loka veginum á milli Hvolsvallar og Víkur og einnig er möguleiki á því að veginum um Skeiðarársand frá Núpsstað, um Öræfi og að Höfn verði lokað. Þá er óvissustig frá klukkan 18 á veginum um Kjalarnes.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×