Innlent

Hratt versnandi veður fram á kvöld

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Frá lokun þjóðvegar 1 við Vík.
Frá lokun þjóðvegar 1 við Vík.

Veður fer hratt versnandi fram á kvöld, einkum sunnan til á landinu, að því er fram kemur í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Víða er spáð stormi eða roki og má búast við að hviður geti farið allt upp í 40 metra á sekúndu á Kjalarnesi, við Hvalfjörð og í Öræfum.

Þá má jafnvel búast við staðbundnu ofsaveðri með hviðum allt upp undir 50 metra á sekúndu undir Eyjafjöllum og í Landeyjum. Í nótt á svo að draga úr veðurhæðinni.

Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við fréttastofu að veðrið nái hámarki um kvöldmatarleytið og verði svo í hámarki fram eftir kvöldi, nánast alveg til miðnættis.

„Síðan fer þetta nú að laga til muna í nótt þó að það lægi nú ekki alveg, þá er áfram hvassviðri eða stormur í þessu í nótt. Svo á morgun er nú skaplegra veður en svo má nefna að það er leiðindaveður á Vestfjörðum einnig þó að það sé ekki eins hvasst og hérna sunnan til,“ segir Hrafn.

Á vef Vegagerðarinnar er einmitt ábending frá veðurfræðingi um að mikill skafrenningi verði á fjallvegum á Vestfjörðum. Þá verður einnig mikill skafrenningur á Hellisheiði og Mosfellsheiði en mögulegt er að Hellisheiði og Þrengslum verði lokað vegna veðurs.

Þá er búið að loka veginum á milli Hvolsvallar og Víkur og einnig er möguleiki á því að veginum um Skeiðarársand frá Núpsstað, um Öræfi og að Höfn verði lokað. Þá er óvissustig frá klukkan 18 á veginum um Kjalarnes.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.