Innlent

Funda á morgun vegna Klaustursmálsins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Steinunn Þóra Árnadóttir og Haraldur Benediktsson voru í liðinni viku sjálfkjörin varaforsetar þingsins til þess að fara með Klaustursmálið.
Steinunn Þóra Árnadóttir og Haraldur Benediktsson voru í liðinni viku sjálfkjörin varaforsetar þingsins til þess að fara með Klaustursmálið.
Þau Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, og Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, munu funda á morgun vegna Klaustursmálsins en þau voru kjörin nýir varaforsetar Alþingis í liðinni til að fjalla um málið og hvaða farveg það mun fara í.

Steinunn og Haraldur tóku við málinu vegna þess að forsætisnefnd Alþingis lýsti sig vanhæfa til að fjalla um málið. Munu hinir nýju varaforsetar taka afstöðu til þess hvort að siðanefnd þingsins skuli fjalla um mögulegt brot þingmannanna sex sem voru á Klaustri á siðareglum þingmanna.

Spurð hvort að fundur þeirra Haraldar á morgun sé sá fyrsti segir Steinunn að þau hafi hist einu sinni áður þar sem þau fengu gögn málsins í hendurnar. Hún segir ómögulegt að segja til um hversu oft þau muni funda eða hverjar lyktir málsins verða.

Klaustursmálið er ekki það eina sem gæti komið til kasta siðanefndar Alþingis á næstu vikum þar sem forsætisnefnd þingsins hefur fengið beiðni inn á borð til sín um að vísa máli Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, til siðanefndar.

Ágúst Ólafur fór í leyfi í desember síðastliðnum eftir að hann fékk áminningu frá trúnaðarnefnd flokksins vegna óviðeigandi samskipta við konu síðastliðið sumar.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir að mál Ágústs Ólafs sé enn hjá forsætisnefnd.


Tengdar fréttir

Nýir vara­for­setar fá tvö mál tengd upp­tökunum á Klaustri inn á borð til sín

Þau Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, og Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem í dag voru sjálfkjörin sem nýir varaforsetar þingsins til að fjalla um Klaustursmálið og hvaða farveg það mun fara í, munu fá tvö mál tengd upptökunum á Klaustur Bar inn á borð til sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×