Innlent

Lilju var brugðið að sjá Klausturþingmenn mætta án fyrirvara

Heimir Már Pétursson skrifar
Þingmenn Miðflokksins létu Lilju ekki vita að þeir hygðust snúa aftur á þing í gær.
Þingmenn Miðflokksins létu Lilju ekki vita að þeir hygðust snúa aftur á þing í gær. Vísir/Vilhelm
Lilju Alfreðsdóttir sem fékk mikla útreið hjá þingmönnum Miðflokksins á Klaustur fundinum var brugðið að sjá þá mæta til þings í gær án þess að gera boð á undan sér. Hún ætlar hins vegar ekki að láta þá trufla sig og skorar á aðra þingmenn að láta þá ekki gera það heldur.

Samkvæmt þeim upptökum sem Bára Halldórsdóttir gerði af samræðum fjögurra þingmanna Miðflokksins og tveggja þáverandi þingmanna Flokks fólksins á Klausturbarnum var mest talað ruddalega um Ingu Sæland og Lilju Alfreðsdóttur.

Það var greinilegt þegar fylgst var með þingfundi í gær að Lilju var brugðið við að sjá þá Gunnar Braga Sveinsson og Bergþór Ólason mætta fyrirvaralaust á ný til þingstarfa.

„Já það er rétt mér brá og tel að það hefði verið skynsamlegt að við hefðum verið látin vita. En það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að við erum kosin á Alþingi til að vinna að sinna umbótamálum fyrir íslenska þjóð,” segir Lilja.

Það hafi hún gert og ætli sér að gera það áfram.

„Og mér finnst rosalega mikilvægt að við fáum að fylgja því eftir og getum unnið á Alþingi Íslendinga í samræmi við það að við séum kosin til að vinna að umbótamálum. Ég segi; umbótamálin þau þurfa að vera á dagskrá.”

Þú ert með öðrum orðum að segja að þú ætlir ekki að láta þessa menn trufla þig við þín störf?

„Nei, það ætla ég svo sannarlega ekki að gera,” segir Lilja.  Allir þessir menn hafi hver með sínum hætti beðið hana afsökunar á sóðalegu orðbragði þeirra í hennar garð.

Hefur þú fyrirgefið þessum mönnum sem þú segir að hafi beðið þig afsökunar?

„Eins og ég segi; ég er auðvitað bara að melta allt þetta. Við þurfum einhvern veginn öll að halda áfram. Það ætla ég að gera og það munu þeir gera. Mér finnst mjög brýnt eins og ég segi; að við séum að setja stóru málin á dagskrá,” segir Lilja Alfreðsdóttir.

Viðtalið við Lilju má sjá í spilaranum hér að neðan. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.