Innlent

Þing­menn sem fara í ó­tíma­bundið og launa­laust leyfi ráða því sjálfir hve­nær þeir koma til baka

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, í þingsal í gær.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, í þingsal í gær. vísir/vilhelm
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir það algjörlega í höndum þeirra þingmanna sem taka sér ótímabundið, launalaust leyfi að ákveða hvenær þeir koma til baka til þingstarfa.

Það hafi verið raunin með Gunnar Braga Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, en þeir komu aftur til starfa á Alþingi í gær eftir að hafa farið í leyfi vegna Klaustursmálsins.

„Það sagði í þeirra bréfum að það var ótímabundið leyfi frá þingstörfum þannig að það var algjörlega í þeirra höndum hvenær þeir kæmu aftur. Varamaður situr að lágmarki eina viku en eftir það gátu þeir ákveðið hvenær þeir kæmu til þingstarfa aftur,“ segir Helgi.

Þingmenn hafa gagnrýnt það að Gunnar Bragi og Bergþór hafi í raun komið fyrirvaralaust til starfa á Alþingi á ný þar sem þeir hafi ekki látið þingmenn vita af því að þeir væru að taka sæti á ný.

Hafa meðal annars þær Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, gagnrýnt þetta en þingmennirnir fóru afar ófögrum orðum um þær tvær þar sem þeir sátu á Klaustur Bar í nóvember síðastliðnum með tveimur öðrum þingmönnum úr Miðflokknum og tveimur þingmönnum sem þá voru í Flokki fólksins.

Helgi segir aðspurður að Gunnar Bragi og Bergþór hafi tilkynnt sér það með tölvupóstum í gærmorgun að þeir myndu taka sæti á þingfundi sem myndi hefjast klukkan hálfellefu.

„Það er að vísu skammur fyrirvari en gagnvart okkur á skrifstofunni var ekkert óeðlilegt við þetta. Það hefur gerst áður að þingmenn hafi tekið sæti þannig að þeir hafi látið vita skömmu fyrir þingfund að svo væri. Þannig að gagnvart hinni formlegu hlið málsins er ekkert við það að athuga. En svo eru auðvitað aðrar hliðar á þessu máli en það er ekki mitt mál að blanda mér í það,“ segir Helgi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×