Fótbolti

Arnór kemst inn á lista yfir bestu táninga heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Sigurðsson.
Arnór Sigurðsson. Getty/David S. Bustamante

Árið 2018 var eftirminnilegt fyrir íslenska knattspyrnumanninn Arnór Sigurðsson en á sama ári og hann fékk sitt fyrsta alvöru tækifæri í atvinnumennskunnni þá var hann líka seldur til CSKA Moskvu, spilaði og skoraði í Meistaradeildinni og lék sinn fyrsta A-landsleik.

Það hefur líka verið tekið eftir uppkomu Skagamannsins eins og sést á samantekt hollenska fótboltablaðsins Voetbal International yfir tuttugu bestu táninga í heimi.Arnór komst upp í átjánda sæti listans sem er frábær árangur hjá íslenskum leikmanni sem mjög fáir vissu hver var fyrir ári síðan.

Arnór Sigurðsson spilaði sinn fyrsta byrjunarliðsleik með Norrköping á móti Östersunds 5. maí 2018 og skoraði þá bæði mörkin í 2-0 sigri. CSKA Moskva keypti hann síðan frá Norrköping 31. ágúst eftir að hann hafði skorað 3 mörk og gefið 3 stoðsendingar í 17 deildarleikjum með besta liði Svíþjóðar.

Arnór lék sinn fyrsta leik með CSKA Moskvu í Meistaradeildinni 19. september 2018 og 23. október var hann í fyrsta sinn í byrjunarliði í Meistaradeildinni á móti Roma.

Hann skoraði síðan sitt fyrsta Meistaradeildarmark á móti Roma 7. nóvember og var síðan bæði með mark og stoðsendingu í 3-0 sigri á Real Madrid á Santiago Bernabeu 12. desember síðastliðinn.

Arnór lék síðan sinn fyrsta A-landsleik á móti Belgíu 15. nóvember en hann var í byrjunarliðinu í þeim leik.

„Arnór Sigurðsson var stórkostlegur í Meistaradeildinni í desember. Hann gaf stoðsendingu og skoraði mark og átti stóran þátt í 3-0 útisigri á Real Madrid. Sigurðsson, sem spilaði sinn fyrsta A-landsleik í nóvember, spilaði á síðasta ári með Norrköping. CSKA greiddi fyrir hann fjórar milljónir evra," segir í umfjöllun Voetbal International um Arnór en Fótbolti.net sagði frá.

Besti táningurinn í heiminum í dag er varnarmaðurinn Matthijs De Ligt hjá Ajax í Hollandi en menn hafa verið að orða hann við stórlið eins og Barcelona. Það segir líka margt um þennan 19 ára strák að hann er þegar kominn með fyrirliðabandið hjá Ajax-liðinu.

Englendingurinn Jadon Sancho hjá Borussia Dortmund er í öðru sæti og í því þriðja er Kai Havertz hjá Bayer Leverkusen. Justin Kluivert, Ryan Sessegnon og Matteo Guendouzi eru allir á listanum sem og Vinicius Junior brasilíska vonarstjarnan hjá Real Madrid.

Næstu menn á undan Arnóri á listanum er Arsenal-maðurinn Reiss Nelson sem er í láni hjá Hoffenheim í Þýskalandi.

Arnór Sigurðsson átti frábæran leik á Santiago Bernabéu í desember. Hér þakkar hann Gareth Bale fyrir leikinn. Getty/Denis Doyle


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.