Innlent

Reykskynjarinn kom til bjargar þegar eldur kviknaði í stofunni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ekki þurfti að flytja neinn á sjúkrahús, að sögn varðstjóra.
Ekki þurfti að flytja neinn á sjúkrahús, að sögn varðstjóra. Vísir/vilhelm
Á sjötta tímanum í morgun var tilkynnt um eldsvoða í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði. Eldurinn kviknaði út frá kertaskreytingu og var lið frá öllum stöðvum sent á vettvang fyrst þegar tilkynning barst, samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. RÚV greindi fyrst frá málinu í morgun.

Að sögn varðstjóra vöknuðu íbúar í morgun við reykskynjara, kíktu inn í stofu og sáu þar hvar eldurinn logaði út frá kertaskreytingu sem gleymst hafði að slökkva á. Slökkvitæki dugði ekki til og forðaði fólkið sér því út.

Lið frá öllum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu var fyrst sent á vettvang en þegar fyrsti bíll mætti á staðinn kom í ljós að eldurinn var minniháttar. Þeir bílar sem enn voru á leiðinni voru því afturkallaðir.

Ekki þurfti að flytja neinn á sjúkrahús en íbúar sýndu engin einkenni reykeitrunar, að sögn varðstjóra. Íbúðin var reykræst og er vinnu lokið á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×