Erlent

Segir Remini bera ábyrgð á morði innan Vísindakirkjunnar

Sylvía Hall skrifar
Remini ólst upp í Vísindakirkjunni en sagði skilið við hana árið 2013.
Remini ólst upp í Vísindakirkjunni en sagði skilið við hana árið 2013. Vísir/Getty
Karin Pouw, alþjóðlegur talsmaður Vísindakirkjunnar, segir leikkonuna Leah Remini bera ábyrgð á því að sextán ára gamall meðlimur kirkjunnar hafi stungið annan meðlim til bana í Ástralíu fyrr í mánuðinum.

Remini ólst upp innan Vísindakirkjunnar en sagði skilið við hana árið 2013. Hún segir ofbeldi og spillingu innan kirkjunnar vera ástæðuna að hún yfirgaf hana en í dag framleiðir hún þætti sem fjalla um það sem gengur á innan Vísindakirkjunnar.

Sjá einnig: Maður drepinn í Vísindakirkjunni í Ástralíu

Maðurinn sem lést var öryggisvörður sem var að fylgja kvenkyns meðlimi í „hreinsunarathöfn“. Sonur konunnar stakk öryggisvörðinn í hálsinn og lést hann af sárum sínum. Að sögn Pouw öskraði árásarmaðurinn „hatursáróðri“ sem megi rekja til umfjöllunar Remini um kirkjunnar.

„Þú vissir hvað þú varst að gera. Ætlunarverk þitt var að ýta undir hatur og breyta því í peninga. Núna hefur manneskja verið myrt,“ segir í yfirlýsingu frá Pouw fyrir hönd kirkjunnar.

Fjallar um „áróðursvélar“ kirkjunnar í þáttum sínum

Þættir Remini, Scientology and the Aftermath, fjalla líkt og fyrr sagði um Vísindakirkjuna og hvað fer fram innan veggja hennar. Remini tekur einnig viðtöl við fyrrum meðlimi kirkjunnar sem segja frá tíma sínum innan hennar og hvað hafi tekið við eftir að þeir sögðu skilið við hana.

Remini til halds og trausts er Mike Rinder, fyrrum háttsettur yfirmaður Vísindakirkjunnar, sem starfaði náið með David Miscavige, leiðtoga kirkjunnar. Rinder yfirgaf kirkjuna árið 2007 eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi innan hennar.

Í þáttunum sýna Remini og Rinder hvernig kirkjan ræðst að fyrrum meðlimum með öllum tiltækum ráðum. Dæmi eru um að þeir sem yfirgefa Vísindakirkjuna séu eltir af einkaspæjurum og settar upp áróðursvefsíður þar sem persóna þeirra er rægð.

Þá hefur kirkjan áður komið með ásakanir í garð Remini vegna þess hve opinskátt hún talar um ár sín innan veggja hennar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×