Innlent

Sprungin dekk í Skíðaskálabrekkunni vegna holu á versta stað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Hellisheiðinni í morgun.
Frá Hellisheiðinni í morgun. Vísir/JóiK
Nokkur fjöldi ökumanna á leiðinni til höfuðborgarinnar urðu fyrir þeim leiðindum að sprakk á dekki þeirra á leið niður af Hellisheiði, um Hveradalabrekkuna, oft nefnd Skíðaskálabrekkan, í Hveradölum í morgun. Þar er stærðarinnar hola í hjólfarinu sem hefur orðið þess valdandi að nokkrir bílar eru úti í vegkanti og þarfnast dekkjaskipta.

Ökumaður sem hringdi í fréttastofu til að láta vita taldi að hans bíll hefði sloppið þar sem hann væri með stálfelgur. Hann hefði í fyrstu talið ómögulegt annað en dekkið væri sprungið en sem betur fer gat hann ekið áfram. Aðrir bílar hefðu líklega verið með veikari felgur. Holan er á þeim stað í brekkunni þar sem Suðurlandsvegurinn er einbreiður.

Þær upplýsingar fengust hjá Vegagerðinni að starfsmenn frá Selfossi væru á leiðinni á staðinn til að fylla í holuna. Ökumenn hefðu bæði hringt í Vegagerðina og lögreglu í morgun til að láta vita af holunni og þeirri hættu sem stafaði af henni.

Hægst gæti á umferð meðan á viðgerð stendur þar sem vegurinn er einbreiður á þeim stað sem gera þarf við veginn.

Uppfært klukkan 11:11 þar sem smáforritið Hola sem FÍB var með í vinnslu, og nefnt var í fyrri frétt, er ekki virkt sem stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×