Innlent

Úrgangur jókst á nýliðnu ári

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Á nýliðnu ári barst Sorpu 12 prósent meira magn af úrgangi en árið á undan. Mest var aukningin í úrgangi er tengist framkvæmdum. Frá 2014 hefur magn úrgangs nú aukist um hundrað þúsund tonn. Þetta sýna fyrstu tölur Sorpu yfir heildarúrgang á nýliðnu ári.

„Það hefur aukist mikið í byggingarúrgangi. Eins og til dæmis litað timbur sem er mælikvarði á framkvæmdir. Hann hefur aukist. Bylgjupappi hefur aukist líka. Það er mælikvarði á innflutning utan af tækjum og tólum og húsgögnum og svo það sem fólk er að panta á netinu en það kemur mikið af því í pappa,“ segir Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu

Hann segir að árið 2014 hafi verið ákveðinn vendipunktur hvað magn úrgangs varðar. „Þá byrjaði úrgangur að aukast fyrst almennilega eftir hrunið og frá þeim tíma hefur magnið sem Sorpa tekur við aukist um sextíu og tvö prósent eða um hundrað þúsund tonn,“ segir Björn. Þannig hefur heildarmagn úrgangs til Sorpu farið úr rúmum 160.000 tonnum í 260.000 tonn á tímabilinu 2014 til dagsins í dag.

Björn segir góðu fréttirnar vera þær að þrátt fyrir aukið magn úrgangs í heildina árið 2018 hafi heimilisúrgangur frá íbúum dregist saman. „Til dæmis úrgangur úr gráu tunnunni, hann hefur dregist saman um 3,7 prósent á milli ára sem bendir þá til þess að fólk sé frekar að flokka,“ segir Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri SorpuAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.