Erlent

Vissu af gagnalekanum í Þýskalandi en létu lögreglu ekki vita

Kjartan Kjartansson skrifar
Merkel kanslari er á meðal þeirra þýsku stjórnmálamanna sem urðu fyrir barðinu á tölvuþrjótunum.
Merkel kanslari er á meðal þeirra þýsku stjórnmálamanna sem urðu fyrir barðinu á tölvuþrjótunum. AP/Markus Schreiber
Upplýsingaöryggisyfirvöld í Þýskalandi vissu af leka persónuupplýsinga um hundruð stjórnmálamanna í fleiri vikur en greindu lögreglu ekki frá honum. Tölvupóstfang og bréfaskipti Angelu Merkel kanslara voru á meðal þess sem óþekktir tölvuþrjótar stálu og birtu á netinu.

Lögregluyfirvöld fengu ekki upplýsingar um tölvuinnbrotin fyrr en á föstudag og var þá greint frá þeim opinberlega. Engu að síður hafði Upplýsingaöryggisstofnun Þýskalands haft vitneskju um gagnalekann frá því í desember, að sögn breska ríkisútvarpsins.

Forseti stofnunarinnar segir að fulltrúar hennar hafi rætt við nokkra þingmenn sem hafi orðið fyrir lekanum í blábyrjun desember og brugðist við. Allir stjórnmálaflokkar Þýskalands urðu fyrir lekanum fyrir utan hægriöfgaflokkinn Valkostur fyrir Þýskaland (AfD).

Nokkrir stjórnmálamannanna hafa ekki tekið skýringum stofnunarinnar þegjandi. Dietmar Bartsch, leiðtogi þingflokk Vinstriflokksins, segir leyndina „algerlega óásættanlega“ og spurði hvort að upplýsingaöryggisstofnunin hefði eitthvað að fela.

Tengiliðir, persónuleg skilaboð og fjármálaupplýsingar voru á meðal þess sem tölvuþrjótarnir stálu og birtu á Twitter. Fórnarlömbin voru ekki aðeins stjórnmálamenn heldur einnig fréttamenn og aðrir þekktir einstaklingar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×