Erlent

Biden telur sig líklegastan til að sigra Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna. EPA/LISA HORNAK
Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, er sagður vera að íhuga af alvöru að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna. Hinn 76 ára gamli Biden ætlar að tilkynna ákvörðun sína á næstu vikum eða mánuðum en fjölmiðlar ytra hafa eftir vinum hans og ráðgjöfum að Biden telji sig þann líklegasta innan Demókrataflokksins til Donald Trump, núverandi forseta.

New York Times segir útlit fyrir átök milli fylkinga í Demókrataflokknum og þá sérstaklega á milli íhaldssamra aðila flokksins og yngri framsæknari aðila. Það skipti bæði kjósendur og bakhjarla flokksins miklu máli að finna aðila sem gæti sigrað Trump en sömuleiðis hafi eftirspurn eftir framsæknum frambjóðendum aukist og þá sérstaklega með tilliti til síðustu þingkosninga þar sem slíkum frambjóðendum gekk vel.



Líklegt þykir að Biden yrði í það minnst meðal fremstu frambjóðenda Demókrataflokksins. Hann þyrfti þó að byggja brýr á milli mismunandi fylkinga innan flokksins. Þá eru uppi vangaveltur að hann yrði ekki vinsæll meðal kvenna og minnihlutahópa.



Bjóði hann sig fram er líklegt að hann mæti nokkrum þeldökkum frambjóðendum og konum.

Þá hefur Biden tekið nokkrar ákvarðanir á stjórnmálaferli sínum sem þykja umdeildar meðal Demókrata. Meðal annars studdi hann innrásina í Írak og stýrði hann yfirheyrslu dómsmálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings yfir Anitu Hill, sem sakaði núverandi hæstaréttardómarann Clarence Thomas um kynferðisbrot.

Flokksmenn báru miklar vonir við að Biden myndi bjóða sig fram árið 2016. Hann tilkynnti þó að hann myndi ekki bjóða sig fram og var það vegna dauða sonar hans. Biden sagðist ekki vera tilbúinn til að sinna embætti forseta.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×