Fótbolti

Heimir Hallgríms þegar búinn að henda út tólf leikmönnum hjá Al Arabi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. Vísir/Getty

Heimir Hallgrímsson var ekkert að bíða með að taka til í leikmannahópnum hjá Al Arabi í Katar.

Heimir segir frá því í viðtali í Miðjunni á Fótbolta.net að tólf leikmenn séu farnir frá liðinu en að einhverjir þeirra hafi verið lánaðir.

Heimir tók við Al Arabi í desember og liðið tapaði 4-0 í fyrsta leiknum undir hans stjórn. Næsti leikur Al Arabi er á móti Al Gharafa á morgun en það verður fyrsti heimaleikurinn síðan að Heimir tók við.

Al Gharafa er í sjötta sæti deildarinnar, þremur stigum og einu sæti á eftir Al Arabi.

„Við vissum að það þyrfti að breyta hópnum. Við erum með ákveðna hugmyndafræði sem er ein af ástæðunum fyrir því að við vorum ráðnir hingað,“ sagði Heimir í viðtalinu í Miðjunni en Eyjamaðurinn vill losna við brasilísu og spænsku áhrifin og vera öðruvísi lið með öðruvísi nálgun á fótboltann.

Þetta er fyrsta starf Heimis síðan að hann hætti með íslenska landsliðið eftir HM í Rússlandi síðasta sumar. Heimir var þá búinn að vera aðstoðar- eða aðallandsliðsþjálfari Íslands frá því í árslok 2011.

Nú stýrir Heimir hinsvegar félagsliði í fyrsta sinn síðan að hann var með Eyjamenn í Pepsi-deildini sumarið 2011.

„Það voru leikmenn í hópnum sem voru ekki með það hugarfar og vinnusemi sem við viljum að leikmenn hafi. Við höfum þurft að taka til. Það hefur verið skúrað út og það er smá hvellur í augnablikinu en við mátum það þannig að það er betra að gera hlutina strax og vinna út frá því heldur en að vera smá saman að breyta hlutunum,“ sagði Heimir sem er með Bjarka Má Ólafsson sér til aðstoðar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.