Herflugvél frá Chile hvarf í nótt með þrjátíu og átta manns innanborðs þegar vélin var á leið til Suðurskautslandsins. Sautján voru í áhöfn vélarinnar og tuttugu og einn farþegi. Hermennirnir voru á leið í herstöð á eyju Georgs Konungs á Suðurskautinu.
Björgunarlið leitar nú vélarinnar og segir hershöfðingi í flughernum að neyðarkall hafi ekki borist. Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar eru björgunaraðilar ekki vongóðir á að áhöfnin og farþegar muni finnast heilir á húfi.
Í tilkynningu frá flughernum segir að vélin, sem er af Hercules gerð, hafi lagt af stað frá flugvellinum í Punta Arenas rétt fyrir klukkan átta í gærkvöldi að íslenskum tíma og um klukkustund síðar hafi samband rofnað við flugvélina. Þá hafði henni verið flogið rúmlega helming leiðarinnar.
Hershöfðinginn Eduardo Mosqueira sagði fjölmiðlum í nótt að mögulega hafi áhöfn flugvélarinnar neyðst til að lenda henni vegna eldsneytisskorts eftir að henni hafi verið flogið af leið. Veður mun hafa verið rólegt á svæðinu þar sem flugvélin hvarf.
Chile stjórnar rúmlega 1.2 milljón ferkílómetrum á Suðurskautinu og rekur þar níu herstöðvar, samkvæmt BBC.