„Ég óttast að Ísland sé að teiknast upp sem spillingarbæli í augum umheimsins,“ sagði Logi. Tilefni fyrirspurnar Loga var Samherjamálið svokallaða en Logi rifjaði jafnframt upp veru Íslands á gráum peningaþvættislista, Panamaskjölin og efnahagshrunið. „Nú er eitt fyrirtæki að rústa orðspori Íslendinga ef sakir reynast sannar. Það er sakað um mútur og skattsvik óboðlega hegðun gagnvart fátækasta fólki í Afríku. Hefur ráðherra ekki áhyggjur af því að fyrirtæki sem treyst hefur verið til að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar bregðist því trausti og þeim skyldum með jafn afgerandi hætti og nú er að teiknast upp og geti lengt veru okkar á þessum gráa lista?“ spurði Logi.

Logi spurði einnig hvort Bjarni teldi eðlilegt að svo mikill auður geti safnast í hendur eins fyrirtækis sem geti síðan skapað bæði „orðsporsvanda og kerfisáhættu fyrir heila þjóð og haft áhrif á önnur útflutningsfyrirtæki,“ líkt og Logi orðaði það.
„Sýn okkar Íslendinga á það hvers konar þjóð við erum, í hvers konar landi við búum, ræðst ekki af einstökum svona málum heldur hvernig við tökum á þeim. Hvort við tökum þau alvarlega, hvort stjórnvöld bregðast við, hvort við höfum stofnanir til að taka á málum, rannsaka, ákæra, dæma þar sem það á við,“ sagði Bjarni. „Ekki af einhverjum ótrúlegum útleggingum Samfylkingarfólks sem ég hef fengið að fylgjast með núna síðasta sólarhringinn um að rót alls vanda þessa máls liggi í sjálfu fiskveiðistjórnarkerfinu,“ sagði Bjarni.