Fótbolti

Segja að Leeds hafi boðið Francesco Totti að spila með liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Francesco Totti var magnaður með Roma og ítalska landsliðinu.
Francesco Totti var magnaður með Roma og ítalska landsliðinu. Getty/Giuseppe Maffia
Áhugi enska b-deildarliðsins Leeds United á gömlum ítölskum knattspyrnuhetjum er í hámarki þessa dagana.

Áður höfðu borist fréttir af því að Leeds vildi bjóða markverðinum Gianluigi Buffon samning en nýjustu fréttirnar koma jafnvel enn meira á óvart.

Ítalskir fjölmiðlar segja frá því að Leeds United hafi boðið hinum 42 ára Francesco Totti leikmannasamning.

Francesco Totti lagði skóna á hilluna vorið 2017 en hætti á dögum störfum hjá Roma þar sem hann hafði verið sem leikmaður eða starfsmaður í 30 ár.

Nú vill Marcelo Bielsa sjá Francesco Totti í búning á nýjan leik og það í Leeds búningi á Elland Road. Francesco Totti átti magnaðan feril með Roma þar sem hann skoraði 307 mörk í 786 leikjum.

Totti er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Roma en hann var allt annað en ánægður með hæstráðendur hjá félaginu þegar hann sagði starfi sínum lausu á dögunum.

Marco Borriello, fyrrum leikmaður ítalska landsliðsins, eyddi tíma með Francesco Totti í sumar og ítölsku miðlarnir hafa það eftir honum að Totti hafi fengið tilboð frá Englandi um að taka skóna af hillunni.

Fox Italia og Tutto Roma settu allt á fullt og grófu það upp að Leeds sé félagið sem um ræðir.

Leeds var nálægt því að komast aftur upp í ensku úrvalsdeildina í vetur en gaf eftir á endanum og féll síðan úr leik á móti Derby í undanúrslitum umspilsins um laust sæti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.