Innlent

Einstæð mynd af öðrum mjaldrinum

Jakob Bjarnar skrifar
Mjaldrarnir komnir til Eyja. Ekki er vitað hvort þetta er Litla-Hvít eða Litla-Grá.
Mjaldrarnir komnir til Eyja. Ekki er vitað hvort þetta er Litla-Hvít eða Litla-Grá. aðsend
Vísi barst einstæð mynd af öðrum mjaldrinum en eins og vart ætti að hafa farið fram hjá nokkrum þeim sem fylgist með eru mjaldrar tveir, Litla-Hvít og Litla-Grá, nú komnir til Vestmannaeyja. Þangað voru mjaldrarnir fluttir í gær með ærinni fyrirhöfn.

Ekki hafa fyrr birst myndir af mjöldrunum tveimur eftir að þeir lögðu í þessa langferð til Íslands alla leið frá Sjahghæ. Og næstu tvo mánuði verða þeir svo hafðir í sóttkví og því verða ekki nema þeir sem annast þessi frægu sjávarspendýr sem fá þau augum barið. En eins og fréttastofa hefur greint frá virðist hafa vel til tekist með að ferja þá til Eyja; þeir eru nú farnir að hreyfa sig og éta sem er góðs viti.

Mjaldurinn einstaklega vinalegur hvalur, kubbslegur, með hlutfallslega lítinn haus, hátt enni og stutt trýni. Hálsinn er stuttur og hálsliðirnir ekki samgrónir eins og hjá flestum hvölum og því er höfuðið hreyfanlegra en hjá öðrum hvölum.aðsend
Ljósmyndarinn, sem ekki vill láta nafns síns getið, segir það leyndarmál hvernig hann náði myndinni en þar má sjá ofan í gám annars mjaldursins hvar hann marar í hálfu kafi í sérstökum seglbörum.

Eftir því sem Vísir kemst næst ríkir almennt mikil ánægja í Eyjum með komu þessara nýju íbúa. Eyjaskeggjar hafa af því reynslu að taka á móti dýrum sem þessum en frægt er þegar háhyrningurinn Keikó dvaldi í Eyjum um hríð. Áður en hann svo flúði til Noregs hvar hann drapst. Þetta telja Eyjamenn hins vegar allt annað og betra dæmi.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.