Innlent

Mjaldrasysturnar fá loðnu að éta

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Hvalirnir voru fluttir á milli landa í sérútbúnum gámum.
Hvalirnir voru fluttir á milli landa í sérútbúnum gámum. VÍSIR/VILHELM
Mjaldrasysturnar eru komnar heim til Vestmannaeyja. Samskiptaleysi varð við annan hvalinn á leiðinni og erfiðlega gekk að koma honum um borð í Herjólf. Allt gekk þó vel að lokum og líður þeim nú vel í sérútbúinni landlaug og gæða sér þar á síld og loðnu.

Mjaldrasysturnar Litla Grá og Litla Hvít komu heim til Vestmannaeyja á ellefta tímanum í gærkvöldi. Ferðalagið frá Kína tók um nítján klukkustundir og gekk vel heilt yfir, þrátt fyrir mikið stress.

Frá Keflavík voru hvalirnir keyrðir Suðurstrandarveginn austur í Landeyjahöfn.

„Þegar við vorum að nálgast Selfoss þá kom upp samskiptaleysi við annan hvalinn þannig ákveðið var að stoppa í smá stund og skoða og allt leit vel út,“ sagði Sigurjón Ingi Sigurðsson, verkefnastjóri hjá sérverkefnadeild TVG-Zimsen.

Stoppað var til að kanna ástandið á hvölunum.Vísir/Magnús Hlynur
Þá var ákveðið að keyra til Landeyjahafnar í einum rykk.

„Þegar við vorum að keyra inn í  ferjuna þá leggst önnur þeirra á hliðina. Þannig að það var smá stress í mönnum fyrir ferðinni yfir, en þjálfararnir og fleiri fóru ofan í til hennar og héldu við hana alla leiðina til eyja,“ sagði Sigurjón Ingi.

Langan tíma tók að koma hvalnum ofan í landlaugina en um leið og það tókst fór hún fljótt að borða og líður nú vel.

Systurnar tvær eru á tiltölulega einföldu fæði að sögn Sigurjóns. Þær fá blöndu af síld og loðnu en dýrin borða um 30 kíló á dag.

„Það er skemmtilegt frá því að segja að þar sem það var nú loðnubrestur á Íslandi þá var nú ekki auðvelt að nálgast loðnu, en ég held að ég hafi náð að finna fyrir þær tæpt tonn af loðnu eftir margar hringingar. Ég held að það sé það eina sem hafi verið til af loðnu hér á Íslandi,“ sagði Sigurjón Ingi.

 

Litla-Grá og Litla-Hvít.Mynd/Sea life trust

Tengdar fréttir

Mjaldrarnir komnir til landsins

Sérútbúnir bílar keyra nú með hvalina frá Keflavík til Landeyjahafnar þar sem Herjólfur tekur við keflinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×