Innlent

Héraðsverk bauð lægst í gerð Norðausturvegar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Séð til Þórshafnar af Brekknaheiði. Um hana liggur vegurinn til Bakkafjarðar.
Séð til Þórshafnar af Brekknaheiði. Um hana liggur vegurinn til Bakkafjarðar. Fréttablaðið/Pjetur
Héraðsverk á Egilsstöðum átti lægsta boð í uppbyggingu 20,5 kílómetra kafla Norðausturvegar um Langanesströnd en vegarkaflinn nær frá Gunnólfsvík í Finnafirði að Skeggjastöðum í Bakkafirði. Verkið á að vinna á næstu tveimur árum og skal því að fullu lokið með bundnu slitlagi 15. september 2021. Alls bárust fjögur tilboð og voru þau opnuð hjá Vegagerðinni í gær en þetta er með stærri útboðsverkum ársins. Tilboð Héraðsverks hljóðaði upp á 596 milljónir króna, sem reyndist 108 prósent af 554 milljóna króna kostnaðaráætlun.

Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, bendir á Langanesströnd þar sem leggja á bundið slitlag á 20 kílómetra kafla milli Þórshafnar og Bakkafjarðar.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Næstlægsta boð, upp á 615 milljónir króna, eða 111 prósent af kostnaðaráætlun, áttu Víðimelsbræður ehf. og Vélaþjónustan Messuholti ehf., Sauðárkróki. Ístrukkur ehf., Jón Ingi Hinriksson ehf., og Steinsteypir ehf., Kópaskeri, buðust til að vinna verkið fyrir 644 milljónir króna. Hæsta boð átti Borgarverk ehf. í Borgarnesi, upp á 691 milljón króna, sem var 125 prósent af kostnaðaráætlun.

Af 44 kílómetra löngum þjóðvegi milli Þórshafnar og Bakkafjarðar eru ennþá 27 kílómetrar af malarvegi og eru þetta síðustu ómalbikuðu kaflarnir á strandleiðinni um norðausturhorn landsins. Þegar þessum kafla lýkur verða aðeins sex kílómetrar eftir, á kaflanum um Brekknaheiði, milli Þórshafnar og Gunnólfsvíkur.

Frá Bakkafirði. Fjær úti við sjóndeildarhringinn sést í Langanes.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
„Það er mjög ánægjulegt fyrir okkur eftir mjög langa baráttu við það að fá þessar vegarbætur,“ sagði Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, í viðtali í fréttum Stöðvar 2 í febrúar, þegar fyrir lá sú stefnumörkun Alþingis að ljúka uppbyggingu Norðausturhringsins. Hún er liður í átaki stjórnvalda til eflingar byggðar við Bakkaflóa. Vegarbæturnar eru meðal annars sagðar gera svokallaðan norðausturhring álitlegri fyrir ferðamenn. 

Frétt Stöðvar 2 um vegagerðina má sjá hér:

 


Tengdar fréttir

Norðausturhringurinn lagður bundnu slitlagi

Átak hefst í sumar við að byggja upp þjóðveginn um Langanesbyggð, milli Þórshafnar og Bakkafjarðar. Sveitarstjórinn segir þetta mjög ánægjulegar vegarbætur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.