Erlent

Stjórnarandstöðuleiðtogi óvænt kosinn til embættis forseta í Kongó

Samúel Karl Ólason skrifar
Felix Tshisekedi.
Felix Tshisekedi. AP/Ben Curtis
Frambjóðandi stjórnarandstöðunnar í forsetakosningunum í Lýðveldinu Kongó, Felix Tshisekedi, fór óvænt með sigur af hólmi í kosningunum, að því er kjörstjórn landsins greinir frá. Bráðabirgðatölur benda til þessa en tveir aðrir voru í framboði, annar úr stjórnarandstöðunni og síðan frambjóðandi ráðandi afla í landinu, Emmanuel Shadary.

Yfirmaður kjörstjórnarinnar segir Tshisekedi hafa fengið 38,5 prósent atkvæða í kosningunum.

Ef Tshisekedi verður lýstur sigurvegari verður það í fyrsta sinn sem einhverjum úr stjórnarandstöðunni tekst að bera sigur úr býtum í kosningum frá því landið öðlaðist sjálfstæði. Núverandi forseti, Joseph Kabila, mun nú láta af völdum, eftir átján ár á forsetastóli.

Verði niðurstaðan staðfest verður þetta í fyrsta sinn sem stjórnarandstaða Kongó ber sigur úr bítum í kosningum frá því ríkið fékk sjálfstæði frá Belgíu árið 1960.

Óttast er að tilkynningin muni leiða til ofbeldis í Kongó en slíkt hefur ávallt gerst í kjölfar kosninga þar í landi. Kosningunum hafði verið frestað í tvö ár vegna ýmissa vandræða við framkvæmd þeirra.

Sjá einnig: Sögulegar en umdeildar kosningar í Kongó



Fayulu, sem var í öðru sæti, hefur ekki tekið yfirlýsingu kjörstjórnar vel og sakar Tshisekedi um valdarán. Þá hefur fylking Shadary og Kabila ekki mótmælt niðurstöðunum sem hefur leitt til þess að margir hafa sakað Tshisekedi um að starfa með ríkisstjórninni. Hann sé í raun handbendi Kabila.

Yfirvöld Frakklands segja niðurstöður kjörstjórnarinnar ekki í samræmi við þau gögn sem eftirlitsaðilar kaþólsku kirkjunnar söfnuðu. Kirkjan var með eftirlitsaðila um landið allt þegar kosningarnar fóru fram.



Kjörsókn er sögð hafa verið 48 prósent og fékk Tshisekedi sjö milljónir atkvæða. Fayulu fékk 6,4 milljónir og Shadary fékk 4,4 milljónir atkvæða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×