Lilja var ein af þeim sem þingmennirnir fóru ófögrum orðum um á Klaustur Bar í nóvember síðastliðnum en hún leggur áherslu á að störf þingsins haldi áfram og kveðst ekki ætla láta þá trufla sig við sín störf.
„Mér brá og tel að það hefði verið skynsamlegt að við hefðum verið látin vita. En það breytir ekki þeirri staðreynd að við erum kosin á Alþingi til þess að vinna að umbótamálum fyrir íslenska þjóð og það hef ég verið að gera á hverjum einasta degi frá því að ég var kjörin í þetta embætti og ég ætla svo sannarlega að gera það áfram,“ segir Lilja en Heimir Már Pétursson, fréttamaður, ræddi við hana í dag.
Hún segir að umbótamálin þurfi að komast á dagskrá.
„Ég var að klára bókafrumvarpið fyrir jól, ég er að mæla fyrir þingsályktunartillögu um að efla íslenskt mál í 22 liðum, ég er að vinna að fjölmiðlafrumvarpi og við erum að vinna að mörgum mjög góðum málum og mér finnst rosalega mikilvægt að við fáum að fylgja þeim eftir og getum unnið á Alþingi Íslendinga í samræmi við það erum kosin til þess að vinna að umbótamálum.“
En þú ert með öðrum orðum að segja að þú ætlir ekki að láta þessa menn trufla þig við þín störf?
„Nei, það ætla ég svo sannarlega ekki að gera,“ segir Lilja en viðtalið við hana má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.