Eftir að rannsókn Roberts Mueller, sérstaka rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, á afskiptum Rússa af forsetakosningunum og mögulegu samráði á milli útsendara þeirra og forsetaframboðs Trump, boðaði William Barr, nýr dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, endurskoðun á rannsókninni.
Repúblikanar hafa lengi krafist rannsóknar á rannsókninni og þeir halda því meðal annars fram að njósnað hafi verið um starfsmenn framboðs Trump.
New York Times segir að ráðuneytið vilji nú ræða við að minnsta kosti einn gagnnjósnasérfræðing og háttsettan greinanda hjá CIA í tengslum við endurskoðunina. Þeir tóku báðir þátt í rannsókn stofnunarinnar á herferð rússneskra stjórnvalda til að hafa áhrif á forsetakosningarnar.
Mueller komst að afdráttarlausri niðurstöðu um að rússnesk stjórnvöld hafi vissulega reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar með það fyrir augum að hjálpa Trump að sigra. Ákærði hann meðal annars rússneskt fyirtæki og einstaklinga því tengda sem ráku leynilega áróðursherferð á samfélagsmiðlum. Staðfesti Mueller þannig ályktun leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna sem legið hefur fyrir í tvö ár.
Trump hefur hins vegar staðfastlega neitað að taka undir mat leyniþjónustustofnana sinna. Forsetinn hefur jafnvel tekið upp hanskann fyrir Vladímír Pútín Rússlandsforseta og sagst trúa neitunum hans umfram bandarískar leyniþjónustustofnanir.
Órói innan CIA vegna endurskoðunarinnar
CIA hóf svokallaða gagnnjósnarannsókn á forsetaframboði Trump þegar árið 2016 þegar hún fékk spurnir af grunsamlega tíðum samskiptum starfsmanna þess við Rússa. Barr hefur sagst vilja komast til botns í hvernig það kom til og hvort löggæsluyfirvöld hafi misnotað vald sitt.Endurskoðunin er sögð valda fulltrúum CIA áhyggjum og heilabrotum. Þó að endurskoðun dómsmálaráðuneytisins sé ekki sakamálarannsókn furða þeir sig á því hvers vegna greiningarvinna leyniþjónustunnar sé undir endurskoðun saksóknara komin.
Gina Haspel, forstjóri CIA, hefur sagt að stofnunin muni vinna með John H. Durham, alríkissaksóknara sem Barr dómsmálaráðherra fól að endurskoða Rússarannsóknina. Hún muni þó ekki veita upplýsingar sem geti stefnt heimildarmönnum, aðferðum eða sambandi við bandamenn í hættu.
Þrátt fyrir að Mueller hafi í rannsókn sinni ekki talið sýnt fram á glæpsamlegt samráð á milli forsetaframboðs Trump og útsendara rússneskra stjórnvalda lýsti hann fjölda samskipta þeirra á milli í skýrslu sinni. Nokkrir starfsmenn framboðsins voru ákærðir fyrir að ljúga um samskipti sín við Rússa, þar á meðal fyrsti þjóðaröryggisráðgjafi Trump, kosningastjóri hans, aðstoðarkosningastjóri og ráðgjafi framboðsins í utanríkismálum.