Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra út í ástandið á bráðamóttöku Landspítalans í fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun og sagði hvern starfsmanninn á fætur öðrum hafa komið fram í fjölmiðlum með neyðarkall til stjórnvalda um aðgerðir án tafar.
„Yfir tvö hundruð einstaklingar leita á bráðamóttöku á sólarhring. Ekki er óalgengt aðþar séu á hverjum tíma um fimmtíu einstaklingar um þau þrjátíu og sex rúm sem þar eru,“ sagði Helga Vala.

Ekki á ábyrgð fjármálaráðherra
Fjármálaráðherra lýsti furðu sinni á málflutningi þingmannsins hvað varðaði ábyrgð á rekstri opinberra stofnanna. Í lögum um opinber fjármál væri kveðið á um hvar ábyrgðin á rekstri opinberra stofnanna lægi.„Við erum með stjórnendur á stofnunum sem eru í samtali við fagráðuneyti. Fjármálaráðuneytið er ekki þátttakandi í því samtali. Mér er algerlega fyrirmunað að skilja hvernig háttvirtur þingmaður kemur hér upp í þingsal og segir; bráðadeild Landsspítalans er á ábyrgð fjármálaráðherrans eða fjármálaráðuneytisins,“ sagði Bjarni.
„Tölum um ábyrgð“
Stjórnendum Landspítalans bæri að gera heilbrigðisráðuneytinu viðvart um stöðu mála og leggja til úrbætur. Samkvæmt lögum bæri fagráðuneytinu síðan að svara stofnununni innan tiltekisns frests.„Við ætlumst til þess að stjórnendur og fagráðuneyti taki á alvarlegum málum á borð við það sem hér er rætt. En menn fari ekki í einhverja pólitíska leiki hér í þingsal og vísi ábyrgðinni bara upp í fjármálaráðuneyti þegar svo þykir henta. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr því að við erum að hlusta á það sem starfsfólk á Landspítalanum er að segja,“ sagði fjármálaráðherra.
„Tölum um ábyrgð. Endilega hæstvirtur ráðherra. Sem ekki vill gera samninga við hjúkrunarfræðinga. Þannig að það er verið að taka af núna vaktaálag á hjúkrunarfræðinga sem gerir það að verkum að það verður fráflæðisvandi, sem gerir það að verkum að bráðamóttaka Landspítalans lokast. Þetta er á ábyrgð ykkar, stjórnvalda,“ sagði Helga Vala Helgadóttir.