Erlent

Tíu ára fangelsi fyrir að skjóta mann á heimili hans

Kjartan Kjartansson skrifar
Allison Jean, móðir Botham, fyrir utan dómsal í Dallas í síðustu viku. Sonur hennar var 26 ára gamall og átti sér einskis ills von þegar hann var skotinn til bana í eigin íbúð.
Allison Jean, móðir Botham, fyrir utan dómsal í Dallas í síðustu viku. Sonur hennar var 26 ára gamall og átti sér einskis ills von þegar hann var skotinn til bana í eigin íbúð. AP/Tom Fox
Lögreglukona í Dallas í Bandaríkjunum var í dag dæmd í tíu ára fangelsi fyrir að hafa skotið óvopnaðan nágranna sinn til bana þegar hún fór íbúðarvillt. Kviðdómur sakfelldi konuna fyrir morð þrátt fyrir að verjendur hennar hefðu byggt á að hún hafi skotið hann í sjálfsvörn þar sem hún hafi talið sig vera í sinni eigin íbúð.

Atvikið átti sér stað í september í fyrra þegar lögreglukonan Amber Guyger var á leið heim úr vinnu. Hún segist hafa farið íbúðarvillt þegar hún fór inn í íbúð á hæð beint fyrir ofan hennar eigin. Þar skaut hún Botham Jean, 26 ára gamlan endurskoðanda, til bana. Jean var óvopnaður og var að horfa á sjónvarpið þegar Guyger skaut hann.

Guyger hefur sagt að hún hafi talið að Jean væri innbrotsþjófur í íbúðinni hennar. Lögmenn hennar reyndu því að byggja vörn hennar á að hún hafi verið í neyðarrétti að verja heimili sitt. Kviðdómendur höfnuðu því en ákváðu engu að síður refsingu hennar neðarlega í refsiramma sem náði í allt að 99 ár, að sögn Washington Post.

Drápið á Jean varð kveikjan að mótmælum í Bandaríkjunum. Jean var svartur en Guyger hvít og kom atvikið í kjölfar hrinu tilfella þar sem hvítir lögregluþjónar skutu óvopnaða blökkumenn til bana.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×