Að því er fram kemur í frétt Reuters hafa rúmlega 38.000 manns neyðst til að flýja heimili sín í borginni Redding sem er um 250 kílómetra norður af Sacramento.
Skógareldarnir hafa valdið gífurlegri eyðileggingu, grandað um fimm hundruð byggingum og rifið tré upp með rótum.
Óttast er að ástandið versni í dag því afar heitt er í norðurhluta Kaliforníu samfara lágu rakastigi. Veðurfræðingar spá því að hitastigið gæti farið 37,7 stig auk þess sem hvasst er í veðri eins og í gær.
Um 3.500 slökkviliðsmenn eru á vettvangi og reyna að ráða niðurlögum eldanna.
