Forsaga málsins er sú að Gestur og Ragnar sögðu sig frá störfum sínum sem verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar í Al Thani-málinu svokallaða. Þeir töldu að réttur skjólstæðinga sinna til réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis við ákæruvaldið við meðferð málsins hefði ítrekað verið þverbrotinn.
Við dómskvaðningu í héraði í málinu voru lögmennirnir sektaðir um eina milljón króna hvor en hvorugur var viðstaddur. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms og ákváðu Gestur og Ragnar að leita til MDE, ósáttir við að vera dæmdir í héraði án þess að fá að halda uppi málsvörn. Þeir hefðu aðeins fengið að verjast á einu dómstigi.
Þá töldu lögmennirnir ekki um refsivert lögbrot að ræða. Mannréttindadómstóllinn var þessu ósammála og taldi að íslenska ríkið hefði ekki brotið á lögmönnunum tveimur.
Gestur og Ragnar ræddu ákvörðun sína að segja sig frá málinu í Klinkinu árið 2013. Þáttinn má sjá að neðan.