Sveinn er talinn hafa gengið fyrstur á Sveinstind við Langasjó líkt og Sveinstind í Öræfajökli, sem einnig er nefndur eftir honum og er annar hæsti tindur landsins (2.044 m) á eftir Hvannadalshnúki (2.110 m). Það er Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur sem á heiðurinn af nafngiftinni þegar hann rannsakaði svæðið í kringum Langasjó í lok 19. aldar.
Sveinstindur við Langasjó er mun auðgengnari en stóri bróðir hans í Öræfajökli og af fjallinu er gríðarlegt útsýni þótt aðeins sé það 1.090 metra hátt. Auðvelt er að komast að rótum fjallsins á jepplingum eftir vegarslóða sem opinn er frá júlí og fram í september.

Af toppnum sést á góðum degi yfir fagurbláan Langasjóinn inn að vesturhluta Vatnajökuls, en meðfram eystri hluta Langasjávar liggja mosagróin fjöll sem heita því fallega nafni Fögrufjöll. Einnig sést í upptök Skaftár, Skaftárafrétt, Lakagíga og hrjóstrugt miðhálendið með ótal tindum, vötnum, ám og söndum.
Gönguleiðin hentar göngufólki á öllum aldri, jafnt öldruðum sem fjölskyldum með börn. Útsýnið yfir Langasjó er einkar fallegt á uppgöngunni og fá fjöll hér á landi trompa það útsýni sem við blasir af tindinum á góðviðrisdegi.