Lögregla og rannsóknarnefnd samgönguslysa unnu í dag að rannsókn umferðarslyssins sem varð við Núpsvötn í gær. Bílstóll fannst laus í Land Cruiser-jeppanum sem fór út af veginum við Núpsvatnsbrú og barnið sem lést var ekki í stólnum. Blóðsýni á ökumanni bifreiðarinnar leiddi í ljós að hann var ekki undir áhrifum áfengis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.
Í tilkynningunni segir að lögregla hafi ásamt fulltrúa rannsóknarnefndarinnar farið á vettvang til þess að framkvæmva bíltæknirannsókn. Henni er ætlað að leiða í ljós hvort eitthvað sem finnist við skoðun bílsins, Land Cruiser-jeppa, gæti hafa átt þátt í slysinu eða valdið því. Sérstaklega verði farið yfir hvort og hvaða öryggisbúnaður hafi verið við notkun þegar slysið varð.
Þar sagði einnig að barnabílstóll hafi verið í bílnum þegar lögregla kom að slysstað. Hann hafi verið laus og barnið sem lést, ellefu mánaða gömul stúlka, ekki í honum.
Þá hafi verið lesið úr aksturstölvu bílsins í því skyni að kanna hraða ökutækisins þegar slysið varð. Einnig hafi hluti brúarhandriðsins verið fluttir á Selfoss til frekari rannsóknar.
Loks sagði í tilkynningu lögreglunnar að niðurstöður úr blóðsýnatöku af ökumanni bifreiðarinnar staðfesti að hann hafi ekki verið undir áhrifum áfengis þegar slysið varð.
Bílstóll barnsins sem lést var laus

Tengdar fréttir

Litla stúlkan sem lést var ekki í bílstól
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir erfitt að fullyrða um það hversu miklu bílstóll hefði getað bjargað en bílstólar veiti börnum gríðarlega mikla vörn.

Stúlkan sem lést ekki orðin eins árs
Tilkynning frá lögreglunni á Suðurlandi vegna banaslyssins við Núpsvötn.

Þrír látnir í slysinu við Núpsvötn
Fjórir eru alvarlega slasaðir.