Erlent

Bandaríkin bregðast við ákvörðun Kínverja um innflutningstolla

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti
Donald Trump Bandaríkjaforseti mynd/Getty Images
Ríkisstjórn Donalds Trump hefur þegar brugðist við ákvörðun Kínverja um álagningu innflutningstolla á bandarískar vörur og hyggst birta lista yfir háþróaðar kínverskar tækniafurðir í vikunni sem lagðir verða innflutningstollar á. Reuters greinir frá. 

Kínverjar hafa ákveðið að leggja tolla á 128 innfluttar vörutegundir frá Bandaríkjunum en kínverska fjármálaráðuneytið greindi frá ákvörðuninni í gærkvöldi og tóku  breytingarnar gildi strax í dag. Tollarnir nema allt að 25% en um er að ræða andsvar Kínverja við ákvörðun yfirvalda í Bandaríkjum frá því í mars um að leggja tolla á innflutt ál og stál frá Kína.

Kínversk yfirvöld segja álagningu tollanna eiga að þjóna þeim tilgangi að vernda hagsmuni og viðskiptajöfnuð Kína vegna þeirra áhrifa sem ákvörðun Bandaríkjanna frá því í mars hafi haft í för með sér. Með breytingunum verður 15% tollur lagður á flestar vörutegundirnar af þeim 128 sem um ræðir, meðal annars á vín, hnetur og ávexti og þá verður 25% tollur lagður á átta vörutegundir, meðal annars á svínakjöt. 

Óttast hefur verið að allsherjar viðskiptastríð sé í uppsiglingu á milli stórveldanna tveggja en um er að ræða tvö af stærstu hagkerfum heims. Kínverjar höfðu áður ekki sagst vilja hefja viðskiptastríð en segja nú að hagkerfi þeirra hafa beðið skaða af innflutningstollum Bandaríkjanna. Donald Trump, Bandaríkjaforseti hefur aftur á móti sagt viðskiptastríð vera af hinu góða, en slíkt stríð ætti að reynast Bandaríkjunum auðvelt að vinna. Ákvörðun Bandaríkjaforseta um að leggja tolla á innflutt ál og stál mætti mikilli andstöðu víða um heim en breytingarnar tóku gildi þann 23. mars. 

Þá hafa yfirvöld vestanhafs þegar greint frá fyrirætlunum um álagningu frekari innflutningstolla á kínverskar vörur. Segja Bandaríkjamenn það vera andsvar við ósanngjarnri framkomu Kínverja með álagningu innflutningstollanna sem greint var frá í gærkvöldi. Það ýti undir líkurnar á því að frekari skref verði tekin, en stórveldin tvö virðast ætla að gjalda líku líkt.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×