Enski boltinn

Ryan Giggs tilkynntur sem nýr þjálfari velska landsliðsins í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Giggs.
Ryan Giggs. Vísir/Getty
Ryan Giggs verður næsti þjálfari velska landsliðsins í fótbolta en enskir fjölmiðlar segja að hann verði tilkynntur á blaðamannafundi sem velska knattspyrnusambandið hefur boðað til seinna í dag.  

Ryan Giggs mun taka við starfinu af Chris Coleman sem hætti með liðið í nóvember og tók þess í stað við liði Sunderland. Giggs mun skrifa undir fjögurra ára samning samkvæmt heimildum BBC.

Wales sló í gegn á EM í Frakklandi eins og íslenska landsliðið en náði ekki að fylgja því eftir í undankeppni HM og verður því ekki meðal liðanna 32 sem keppa í úrslitakepopni HM í Rússlandi í sumar.

Ryan Giggs hefur verið lengi í umræðunni um næst stjóra velska landsliðsins og þessar fréttir koma því ekki mikið á óvart.

Velska sambandið ræddi einnig við þá Craig Bellamy, Osian Roberts og Mark Bowen en ákvað síðan að ráða sigursælasta leikmann ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi.  

Ryan Giggs lék 64 landsleiki fyrir Wales frá 1991 til 2007 og var fyrirliði liðsins um tíma. Hann fékk hinsvegar á sig gagnrýni fyrir að draga sig oft út úr hópnum og missa af mörgum vináttulandsleikjum.

Ryan Giggs tók tímabundið við liði Manchester United í fjórum síðustu leikjum liðsins 2013-14 tímabilið eftir að David Moyes var rekinn. Hann var síðan aðstoðarmaður Louis van Gaal í tvö ár en yfirgaf Old Trafford eftir að Jose Mourinho settist í stjórastólinn.

Ryan Giggs lék allan sinn feril með Manchester United frá 1990 til 2014 og er leikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi. Hann varð þrettán sinnum ensku meistari með United sem er met.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×