Innlent

Sagt upp vegna ásökunar um nauðgun

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Jón Páll Eyjólfsson
Jón Páll Eyjólfsson Vísir/Ernir

Uppsögn Jóns Páls Eyjólfssonar, leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar, má rekja til þess að hann var sakaður um alvarlegt kynferðisbrot. RÚV greindi fyrst frá.

Jón Páll er sakaður um nauðgun sem átti sér stað í vinnuferð fyrir tæpum tíu árum síðan. Í samtali við RÚV segir Þuríður Helga Kristjánsdóttur, framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar, að Jón Páll hafi viðurkennt brotið í byrjun desember að hafa beitt konu grófu kynferðisofbeldi.

„Mér var auðvitað brugðið. Þetta var mikið áfall og það tók við ákveðinn hvirfilvindur í mínu tilfinningalífi. Ég óskaði eftir því að hann mundi tala um þetta opinskátt,” segir Þuríður við RÚV.

Samkvæmt heimildum Vísis mun Jón Páll þó ekki hafa viðurkennt brotið en hann hafi heldur ekki borið það af sér.

Í yfirlýsingu sem Jón Páll sendi frá sér í dag sagði hann að fyrir fimm árum hafi, að frumkvæði þolandans, verið unnið að sátt í málinu og stefnt hafi verið að henni þegar MeToo byltingin hafi farið af stað. Hann segist hafa gert Þuríði Helgu grein fyrir stöðunni strax.

Í yfirlýsingu í desember sagðist Jón Páll láta af störfum vegna rekstrarörðugleika leikfélagsins. Ekki fengist fé til starfseminnar en að hann ætlaði þó að kveðja með því að leikstýra sýningunni „Sjeikspír eins og hann leggur sig“ en Jón Páll sagði við Vísi í morgun að ekkert yrði úr því að hann kæmi að því verkefni.

Hvorki náðist í Jón Pál né Þuríði Helgu við vinnslu þessarar fréttar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×