Erlent

Kenna hvor annarri um vopnahlésbrot

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Vopnahlésbrotin meintu voru gerð strax á fyrsta degi.
Vopnahlésbrotin meintu voru gerð strax á fyrsta degi. Nordicphotos/AFP
Stríðandi fylkingar í Jemen, Hútar og stjórnarliðar, kenndu hvor annarri um að hafa brotið gegn nýsamþykktu vopnahléi í hafnarborginni Hodeidah. Samið var um vopnahléið í Stokkhólmi í síðustu viku undir handleiðslu Sameinuðu þjóðanna. Barist hafði verið af hörku á svæðinu á árinu en pattstaða var í átökunum. Samkvæmt Reuters sögðu borgarbúar frá því seint á þriðjudagskvöld, á fyrsta degi vopnahlésins, að heyrst hafi sprengingar og skothvellir í suðurhluta borgarinnar. Ró var þó komin yfir svæðið í gær.

Sameinuðu þjóðirnar kölluðu Húta og stjórnarliða á teppið í gær í myndsímtali. Meðal annars var rætt um hvernig eigi að kalla hermenn frá Hodeidah og þremur öðrum hafnarplássum sem vopnahléið nær til.

Al-Masirah TV, fréttastöð í umsjón Húta, sakaði hernaðarbandalagið sem Sádi-Arabar leiða til stuðnings stjórnarliða um að varpa sprengjum, meðal annars í nágrenni flugvallar borgarinnar. WAM frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum, aðila bandalagsins, greindi aftur á móti frá því að Hútar hefðu varpað sprengjum í austurhluta borgarinnar.

Heimildarmaður Reuters innan úr bandalaginu sagði að Hútar myndu fá að njóta vafans í bili en ef SÞ skærust ekki í leikinn í bráð yrði samkomulagið sem gert var í Stokkhólmi marklaust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×