Enski boltinn

Upphitun: Veislan heldur áfram í dag

Hjörvar Ólafsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sárabótarmark fyrir Everton þegar liðið fékk slæman skell á móti Tottenham Hotspur á Þorláksmessu.
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sárabótarmark fyrir Everton þegar liðið fékk slæman skell á móti Tottenham Hotspur á Þorláksmessu. Nordicphotos/Getty
Enski boltinn Eins og venjan er fá leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla lítinn tíma til þess að jafna sig eftir kjötátið á jóladegi. Níu leikir fara fram í deildinni á öðrum degi jóla og 19. umferð deildarinnar lýkur svo degi síðar. Þegar þeirri umferð er lokið verður deildin hálfnuð.

Möguleiki er á Íslendingaslag þegar Everton sækir Burnley heim. Jóhann Berg Guðmundsson hefur hins vegar verið að glíma við meiðsli undanfarið og ekki leikið í síðustu tveimur deildarleikjum liðsins sem tapaði gegn Lundúnaliðunum Totten­ham Hotspur og Arsenal.

Burnley hefur raunar einungis farið með sigur af hólmi í einum af síðustu ellefu deildarleikjum sínum og þarf nauðsynlega á stigum að halda í harðri fallbaráttu. Jóhann Berg og félagar hans eru fyrir umferðina í þriðja neðsta sæti deildarinnar með 12 stig og eru tveimur stigum á eftir Aroni Einari Gunnarssyni og liðsfélögum hans hjá Cardiff City sem eru í sætinu fyrir ofan fallsæti.

Everton laut í lægra haldi 6-2 fyrir Tottenham Hotspur á Þorláksmessu, en Gylfi Þór skoraði þar annað marka Everton í leiknum og átti þátt í undirbúningnum að marki Theo Walcott. Cardiff City fær möguleika á að rétta úr kútnum eftir slæmt tap gegn Manchester United um helgina þegar liðið heimsækir Crystal Palace sem er í hæstu hæðum eftir 3-2 sigur gegn Manchester City.

Liverpool sem er með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar fyrir leikina um jólahátíðina etur kappi við Newcastle United á meðan Manchester City vonast til þess að komast aftur á sigurbraut í leik liðsins gegn Leicester City sem vann frækinn 1-0 sigur gegn Leicester City í síðustu umferð deildarinnar.

Klippa: Premier League Matchweek 19 Preview



Fleiri fréttir

Sjá meira


×