Enski boltinn

Lygileg endurkoma Leeds annan leikinn í röð

Anton Ingi Leifsson skrifar
Það ríkir mikil gleði í Leeds. Eðlilega.
Það ríkir mikil gleði í Leeds. Eðlilega. vísir/getty
Leeds United er á hraðbyr upp í ensku úrvalsdeildina en eftir 3-2 sigur á Blackburn er liðið sex stiga forskot á liðið í þriðja sæti.

Leeds vann ótrúlegan sigur á Aston Villa í síðustu umferð en sigurmarkið skoraði Kemar Roofe með nánast síðustu spyrnu leiksins.

Í dag var svipað uppi á teningnum. Leeds komst yfir á 33. mínútu er Derrick Williams varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.

Blackburn jafnaði í upphafi síðari hálfleiks er Charles Mulgrew skoraði úr vítaspyrnu og hann var aftur á ferðinni í uppbótartíma er Blackburn komst yfir. Flestir héldu þá að sigur Blackburn væri í höfn enda 91 mínúta komin á klukkuna.

Dramatíkinni var þó ekki lokið. Kemar Roofe, fyrrum Víkingur, jafnaði metin í næstu sókn. Hann var ekki hættur því hann skoraði svo sigurmarkið á fjórðu mínútu uppbótartíma og tryggði Leeds ótrúlegan sigur.

Leeds er nú á toppnum með 51 stig en Norwich er í öðru sætinu með 48 stig. WBA er í þriðja sætinu með 45 stig en tvö efstu liðin fara beint upp. Það þriðja fer í umspil eins og lið fjögur til sex.

Birkir Bjarnason kom inn á sem varamaður í uppbótartíma er Aston Villa vann 1-0 útisigur á Swansea. Sigurmarkið skoraði Conor Hourihane á 63. mínútu en Villa er komið í níunda sætið; þremur stigum frá umspilssæti.

Jón Daði Böðvarsson var ekki í leikmannahópi Reading sem tapaði 1-0 fyrir Millwall á útivelli en Reading er í vandræðum. Þeir eru í næst neðsta sæti deildarinnar með nítján stig, þremur stigum frá öruggu sæti.

Öll úrslit dagsins:

Birmingham - Stoke 2-0

Bolton - Rotherham 2-1

Bristol - Brentford 1-1

Leeds - Blackburn 3-2

Middlesbrough - Sheffield Wednesday 0-1

Millwall - Reading 1-0

Norwich - Nottingham Forest 3-3

Preston - Hull 1-2

QPR - Ipswich 3-0

Sheffield United - Derby 3-1

Swansea - Aston Villa 0-1

WBA - Wigan 2-0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×