Enski boltinn

Líkir Ole Gunnar Solskjær við góðan særingamann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. Vísir/Getty
Manchester United hefur fengið sex stig og skorað átta mörk í fyrstu tveimur leikjum sínum undir stjórn Norðmannsins Ole Gunnar Solskjær.

Dökku skýin eru á bak á burt á Old Trafford og skælbrosandi Ole Gunnar á hliðarlínunni er gott merki um sólaruppkomu í Leikhúsi draumanna eftir lægðir og þrumuveður síðustu vikna og mánaða.

Manchester United hefur unnið 5-1 sigur á Cardiff og 3-1 sigur á Huddersfield í fyrstu tveimur leikjum sínum undir stjórn Ole Gunnar Solskjær.

Paul Pogba, milljarðamaðurinn sem var út í kuldanum hjá Jose Mourinho, hefur átt þátt í fjórum af átta mörkum United-liðsins í þessum tveimur leikjum. Pogba átti tvær stoðsendingar á móti Cardiff og skoraði tvö mörk á móti Huddersfield.

United-liðið var með sex stig og tíu mörk samanlagt í síðustu sex deildarleikjum sínum undir stjórn Jose Mourinho. Pogba átti ekki þátt í neinu þeirra og spilaði aðeins í 173 mínútur samnlagt í þessum sex leikjum. Hann hefur spilað í 180 mínútur í fyrstu tveimur leikjum Solskjær.

Thomas Wilbacher, skrifar um ensku úrvalsdeildina fyrir sænska blaðið Expressen og hann lítur á norska stjórann sem góðan særingamann.





„Hvað getur Solskjær eiginlega hafa breytt miklu fótboltalega á þessum stutta tíma? Auðvitað hafa þessir tveir sigurleikir snúist lítið um fótboltalega getu hans eða liðsins. Frekar sé ég Solskjær sem særingamann sem var kallaður inn á Carrington æfingasvæðið og inn á Old Trafford til að losa félagið við illa anda Mourinho,“ skrifaði Thomas Wilbacher.

„Það besta fyrir Solskjær er að hann kom til Manchester á góðum tímapunkti. Það vildu allir losna við Mourinho og leikjadagskráin var líka hagstæð enda mikið um leiki á móti lakari liðunum. Það mun koma tíma til að velta betur fyrir sér þjálfaraaðferðum Solskjær en eins og er þá snýst þetta mest um að búa til samstöðu og samhug innan Manchester United,“ skrifaði Wilbacher.

„Nú geta allir stuðningsmenn United ekki beðið eftir næsta leik. Þeir geta þakkað særingamanninum Ole Gunnar Solskjær fyrir það,“ skrifaði Wilbacher. Það má finna allan pistil hans hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×