Innlent

Sanna ánafnar Maístjörnunni hluta launa sinna

Jakob Bjarnar skrifar
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, segir þreföld lágmarkslaun hámark.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, segir þreföld lágmarkslaun hámark. fbl/STEFÁN
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista, hefur ákveðið að styrkja Maístjörnuna, sérstakan sjóð Sósíalistaflokksins, með mánaðarlegu framlagi, 100 þúsund krónum. Þetta er fé sem hún ætlar að taka beint af launum sínum sem þýðir þá að þau lækka sem því nemur.

Þetta kemur fram meðal annars í tilkynningu sem sjá má á vef Sósíalistafélags Íslands. Þar segir af Maístjörnunni, sem er framkvæmdasjóður flokksins. Þar segir að með þessu lækki Sanna í raun laun sín sem borgarfulltrúi úr 908 þúsund krónum á mánuði í um 750 þúsund krónur fyrir skatt eða 2,5föld lágmarkslaun. Jafnframt er vitnað í borgarfulltrúann.

„Mér finnst að við eigum að setja mörk á hæstu laun í samfélaginu, hversu mikið hærri þau geti verið en lágmarkslaun. Mér finnst þreföld lágmarkslaun algjört hámark, til dæmis fyrir borgarstjóra, og setti launin mín því í þrep þar fyrir neðan,“ segir Sanna.

Maístjarnan er sjóður sem heyrir undir framkvæmdastjórn Sósíalistaflokksins, sem sér um rekstur hans og úthlutanir en hann er ætlaður til styrkingar hagsmunabaráttu verr settra hópa. Sósíalistaflokkurinn fékk framlag frá Reykjavíkurborg upp á 900 þúsund krónur á þessu ári. Á næsta ári má reikna með að framlagið verði tvöfalt hærra og á kjörtímabilinu renni um sjö milljónir króna úr borgarsjóði til Maístjörnunnar, í gegnum Sósíalistaflokkinn. Framlag Sönnu til Maístjörnunnar á kjörtímabilinu er metið á yfir fjórum milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×