Innlent

Konan reyndist móðir barnanna á heimilinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Konan var handtekin í Hafnarfirði.
Konan var handtekin í Hafnarfirði.
Afgönsk kona, sem handtekin var í nóvember fyrir tilstilli barnaverndaryfirvalda, reyndist móðir barnanna fimm sem voru á heimili hennar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá lögmanni konunnar en hún var handtekin vegna gruns um að hún væri ekki móðir barnanna.

Í yfirlýsingu lögmannsins segir að niðurstöður úr lífsýnatökunni hafi leitt í ljós að grunsemdir barnaverndar og lögreglu væru ekki á rökum reistar. Þá hafi konan og börn hennar orðið fyrir verulegu ónæði vegna málsins og sjái hún sig því knúna til að leiðrétta umfjöllun fjölmiðla.

Fjórum barnanna var komið í umsjá barnaverndaryfirvalda í kjölfar handtökunnar en í yfirlýsingunni segir að öll hafi þau verið afhent móður sinni strax og niðurstöður lífsýnarannsóknar voru ljósar.

Skúli Jónsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðfestir í samtali við Vísi að konan hafi reynst móðir barnanna fimm en lögreglu bárust niðurstöður þess efnis fyrir nokkrum vikum.

Skúli segir aðspurður að rannsókn er varðar efasemdir um skyldleika sé því lokið. Annar hluti málsins, sem tengist skilríki sem haldlagt var á vettvangi, sé þó enn í rannsókn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×