Enski boltinn

Búnir að fimmfalda stigafjöldann eftir að Aron Einar kom aftur inn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson fagnar markinu sínu.
Aron Einar Gunnarsson fagnar markinu sínu. Vísir/Getty
Aron Einar Gunnarsson skoraði sitt fyrsta mark í mjög langan tíma í ensku úrvalsdeildinni í 2-1 sigri á Wolves í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Aron Einar sýndi og sannaði í leiknum enn á ný mikilvægi sitt fyrir Cardiff City liðið sem vann þarna sinn þriðja sigur í síðustu sex leikjum.

Aron Einar missti af átta fyrstu leikjum Cardiff City vegna hnémeiðsla og velska liðið vann engan af þessum átta leikjum.

Cardiff fékk í raun aðeins tvö stig í fyrstu sjö umferðunum og þau komu í markalausum jafnteflum á móti Newcastle og Huddersfield.

Aron Einar kom aftur inn í liðið á móti Fulham 20. október og Cardiff vann þann leik 4-2. Aron Einar hefur nú byrjað inná í sex leikjum í röð og spilað allar 90 mínúturnar í síðustu fjórum leikjum.

Cardiff City hefur alls náð í níu stig síðan að Aron Einar kom aftur inn. Velska liðið hefur því meira en fimmfaldað stigafjöldann síðan að íslenski landsliðsfyrirliðinn kom inn á völlinn aftur. Í sex leikjum hefur liðið farið úr tveimur stigum og upp í ellefu stig.

Án Arons Einars var Cardiff með 20. og lélegasta árangurinn í deildinni en liðið hefur náð í ellefta besta árangurinn í deildinni síðan að Aron kom inn.



Aron Einar Gunnarsson skorar hér markið sitt.Vísir/Getty
Cardiff City án Aron Einars í vetur:

Fyrsta til áttunda umferð:

2 stig í 8 leikjum

(0 sigurleikir - 2 jafntefli - 6 tapleikir)

8 prósent stiga í húsi

Sæti 1 til 8. umferð: 20. sæti af 20 liðum

Cardiff City með Aron Einar í vetur:

Níunda til fjórtánda umferð:

9 stig í 6 leikjum

(3 sigurleikir - 0 jafntefli - 3 tapleikir)

50 prósent stiga í húsi

Sæti 9. til 14. umferð: 11. sæti af 20 liðum








Fleiri fréttir

Sjá meira


×