Enski boltinn

Klopp sagði leikmenn sína í stórhættu og líkti varnarleik Burnley við keilu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp og ein af tæklingum Burnley-manna í leiknum.
Jürgen Klopp og ein af tæklingum Burnley-manna í leiknum. Samsett/Getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var sáttur með sigurinn en ekki leikstíl mótherjanna í 3-1 sigri Liverpool á Burnley í gær.

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley létu vel finna fyrir sér í leiknum og nokkrar skrautlegar tæklingar litu dagsins ljós á rennandi blautum vellinum.  

„Við unnum leikinn en þeir buðu upp rennitæklingar á blautu grasinu frá byrjun leiks og ég er á því að dómarinn hafi þurft að taka á því strax. Meiðslahættan ere gríðarleg,“ sagði Jürgen Klopp.

„Þú nærð boltanum, sem er gott, en þetta er eins og í keilu því þú tekur síðan leikmanninn niður líka. Það gerðist fjórum eða fimm sinnum í leiknum,“ sagði Klopp.

„Allir eru hrifnir af fyrstu þremur eða fjórum tæklingunum í leikjum. Ég veit það. Það er hluti af fótboltanum en þetta hefur sínar afleiðingar. Dómarinn dæmir ekkert en svo meiðist Joe Gomez,“ sagði Klopp.





Sean Dyche, knattspyrnustjóri Burnley, var mjög sáttur með tæklingar sinna manna í leiknum og sagði sína menn hafa átt nokkrar frábærar tæklingar í leiknum.

„Mér fannst tímasetningin á tæklingunum vera frábær. Þú verður að vinna boltann og þú verður að bjóða þessum mönnum birginn,“ sagði Sean Dyche.

Sean Dyche og Jürgen Klopp voru ekki alltof sáttir í leikslok en Dyche virtist þá lesa Klopp pistilinn eftir að þeir þökkuðu hvorum öðrum fyrir leikinn.

„Ég lét sjálfur finna fyrir mér sem leikmaður og tæklingar eru hluti af leiknum. Völlurinn var blautur og þegar menn vaða svona í tæklingarnar þá er alltaf hætta á meiðslum. Þannig var það með Joe Gomez,“ sagði Jürgen Klopp.

Joe Gomez fór af velli eftir aðeins 23 mínútna leik eftir eina af viltu tæklingum Burnley-manna í leiknum.

„Við urðum að taka ótrúlega mikilvægan leikmann af velli. Við vildum lík vinna leikinn fyrir Joe í seinni hálfleiknum. Strákarnir kláruðu þetta fyrir hann og nú verðum við að sjá til hversu alvarleg meiðslin eru hjá Joe,“ sagði Klopp.

Hér fyrir neðan má sjá viðtal við Jürgen Klopp strax eftir leikinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×