Enski boltinn

Sara Björk fyrir ofan stórstjörnur á lista yfir 100 bestu fótboltakonur heims

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með Wolfsburg.
Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með Wolfsburg. Vísir/Getty
Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, er í 31. sæti á lista The Guardian yfir bestu fótboltakonur heims fyrir árið 2018.

Guardian er með glæsilega 70 manna dómnefnd sem samanstendur af leikmönnum, þjálfurum og blaðamönnum og því er þetta mikill heiður fyrir Hafnfirðinginn sem átti gott ár með félagsliði sínu, Wolfsburg.

Sara Björk varð bæði Þýskalands- og bikarmeistari með Wolfsburg og varð fyrsta íslenska konan til að spila úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Þar meiddist hún reyndar illa og þurfti að fara út af í leik sem að þýska liðið tapaði gegn PSG.

„Þetta var annað stöðugt ár hjá hinni mögnuðu Gunnarsdóttur. Hún spilaði stórt hlutverk í tvennunni sem að Wolfsburg vann heima fyrir og spilaði stórvel í Meistaradeildinni,“ segir í umsögn um Söru.

Sara Björk Gunnarsdóttir var einni vítaspyrnu frá því að koma Íslandi í umspilið.vísir/daníel
„Íslenska landsliðskonan skoraði mikilvægt útivallarmark á móti Chelsea en meiddist eftir klukkutíma í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Hún átti stóran þátt í því að Ísland var nálægt því að skilja Þýskaland eftir í undankeppni HM en klúðraði víti á ögurstundu sem varð til þess að Ísland komst ekki í umspilið,“ er sagt um íslenska landsliðsfyrirliðann.

Dómnefndin er með Söru Björk fyrir ofan stórstjörnur í boltanum en Julie Ertz, einn besti leikmaður bandaríska kvennalandsliðsins, er í sætinu fyrir neðan hana og EM-stjarna Dana, Nadia Nadmin, er í 34. sæti.

Einnig fyrir neðan söru eru stórkostlegar fótboltakonur á borð við Becky Sauerbrunn, Maren Mjelde, Önju Mittag og hollenski Evrópumeistarinn Jackie Groenen.

Endanlegur listi The Guardian liggur ekki fyrir en blaðið hefur talið niður undanfarna daga og á eftir að birta þær tíu efstu í kosningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×