Innlent

Rósa og Andrés styðja ekki veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
„Ástæða þess að ég styð ekki málið og ætla að sitja hjá við afgreiðslu þess er í fyrsta lagi sú að mér finnst verið að keyra málið í gegn,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna, um veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

„Ég er ekki viss um að það þurfi að gera þetta í svona miklum flýti,“ heldur Rósa áfram. „Svo finnst mér efni frumvarpsins með þeim hætti að við séum að búa til enn meiri afslátt til útgerðarinnar.“

Rósa Björk og flokksbróðir hennar, Andrés Ingi Jónsson, sátu hjá í atkvæðagreiðslu við aðra umræðu á þriðjudaginn.

Frumvarpið var afgreitt til þriðju umræðu í atvinnuveganefnd í gær.

„Það kom fram ósk frá minnihlutanum um að málið kæmi inn í nefndina milli umræðna og það var orðið við því. Við fengum nokkra gesti á okkar fund og það var farið yfir ýmsa hluti en það leiddi ekki til neinna breytingartillagna af okkar hálfu,“ segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar.

Rósa telur enn mikil álitaefni uppi í málinu. „Við getum í raun og veru ekki aðskilið veiðigjöldin frá umræðu um fiskveiðistjórnunarkerfið. Þegar við erum að breyta lögum um veiðigjöld þá verðum við að geta staðið frammi fyrir kjarnaspurningunni sem er hver er sanngjarn hlutur þjóðarinnar af rentunni sem skapast af nýtingu auðlindar þjóðarinnar,“ segir Rósa.

Rósa Björk segist styðja það að gildandi lög verði framlengd og tíminn nýttur til að vinna málið betur.

„Það þarf að gerast í meiri sátt. Mér finnst ekki vera neinn sáttabragur í þeim ræðum sem hafa verið fluttar í þinginu.“




Tengdar fréttir

Segja engar tilraunir gerðar til samráðs

Stjórnarandstaðan á Alþingi sakar ríkisstjórnarflokkana um að ætla að keyra frumvarp um veiðigjald í gegnum þingið án eðlilegs samráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×