Enski boltinn

Úttekt Sky Sport: Frammistaða Gylfa lykill að uppkomu Everton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu um síðustu helgi.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu um síðustu helgi. Vísir/Getty
Everton er á góðu skriði í ensku úrvalsdeildinni en liðið mætir inn í nágrannaslaginn á móti Liverpool um helgina með fimm sigra og aðeins eitt tap í síðustu sjö leikjum sínum.

Sky Sports skoðaði betur ástæðurnar fyrir mun betri leik Everton á þessu tímabili og hvernig knattspyrnustjóranum Marco Silva hefur tekið að nýta mannskapinn sinn betur á sínu fyrstu leikstíl í stjórastólnum á Goodison Park.

Það þarf ekki að koma okkur Íslendingum mikið á óvart að ein af niðurstöðunum í þessari úttekt Sky Sports sé að íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson sé ein af lykilmönnunum í því að Everton tókst að betrumbæta sinn leik.

Everton endaði í áttunda sæti á fyrsta tímabili Gylfa með félaginu þar sem þrír stýrðu liðinu (    Ronald Koeman, David Unsworth og Sam Allardyce) en liðið situr núna í sjötta sæti og á uppleið.

Blaðamaður Sky Sports hrósar Everton ekki aðeins fyrir stigasöfnunina í vetur heldur einnig fyrir góðan fótbolta. Sóknartölfræði liðsins er allt önnur og miklu glæsilegri heldur en á síðasta tímabili þegar liðið spilaði hreinlega hundleiðinlegan fótbolta.

Í fyrra var aðeins eitt lið í deildinni með færri skot á mark en í vetur er Everton liðið að reyna helmingi fleiri skot. Ekkert félag í deildinni hefur tekið viðlíka stökk í þeirri tölfræði.

Varnarleikurinn er líka mun betri og liðið er að gefa andstæðingum sínum færri tækifæri að ná skotum að marki.

Marco Silva steig stórt skref til framtíðar í sumar með því að kaupa sex leikmenn 25 ára yngri og nýju mennirnir hafa stimplað sig inn. Kurt Zouma, Yerry Mina og Lucas Digne hafa allir komið inn í varnarleikinn með góðum árangri og Digne er sá varnarmaður sem hefur skapað flest færi í deildinni.

Andre Gomes hefur verið frábær á miðjunni og Bernard er líka að gera góða hluti. Svo má ekki gleyma sóknarmanninum Richarlison sem hefur skorað sex mörk og unnið sér sæti í brasilíska landsliðinu.





Lykilatriðið er þó hvernig Marco Silva tókst að kveikja á þeim Michael Keane og Gylfa Þór Sigurðssyni. Báðir áttu þeir ekki sitt besta tímabil í fyrra en hafa báðir verið magnaðir í vetur.

„Þetta eru tveir leikmenn sem voru í vandræðum á síðasta tímabili en hafa báðir verið lykilmenn í uppkomu Everton. Ný forysta hefur lífgað þá við,“ segir meðal annars í úttekt Sky Sports.





Dugnaður Gylfa hjálpar til að koma Everton á toppinn yfir það að vinna boltann á síðasta þriðjungi vallarins og Gylfi er líka lykilmaður í hraðari sóknum. Everton var alltof lengi að koma sér upp völlinn í fyrra en allt aðra sögu er að segja af liðinu í vetur.

Nú er hinsvegar komið að athyglisverðu prófi á liðið þegar Gylfi og félagar heimsækja erkifjendur sína og nágranna í Liverpool á Anfield á sunnudaginn.

Það má sjá alla úttekt Sky Sports með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×