Enski boltinn

Moura fær tækifæri til að hefna sín á Emery

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lucas Moura er orðinn fastamaður í liði Tottenham.
Lucas Moura er orðinn fastamaður í liði Tottenham. vísir/getty
Lucas Moura, leikmaður Tottenham í ensku úrvalsdeildinni, fær tækifæri til að hefna sín á Unai Emery, knattspyrnustjóra Arsenal, þegar að Lundúnarliðin mætast í borgarslag í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Emery setti Moura í frystikistuna hjá Paris Saint-Germain þegar að þeir unnu saman þar en Moura hefur látið hafa eftir sér að verstu sjö mánuðir ferilsins voru undir stjórn Emery í frönsku höfuðborginni.

Nú mætast þeir í fyrsta sinn með sínum nýju liðum en Moura er yfir það hafinn að gera lítið úr Emery eða tala illa um hann í aðdraganda leiksins. Hann virðir Emery og ákvarðanir hans í fortíðinni.

„Ég verð alltaf að virða ákvörðun þjálfarans. Ég veit alveg að þetta var erfitt fyrir hann því hann þurfti alltaf að velja einhverja ellefu til að byrja leikina,“ segir Moura í viðtali við Sky Sports.

„Ég er ekkert að spá í því sem er búið að gerast heldur horfi ég fram á veginn og spái í hvernig ég get unnið þennan leik. Ég hef ekkert á móti Unai. Ég virði hann. Hann er mjög góður þjálfari.“

„Ég verð bara að sýna honum að ég á skilið að spila með stóru liði og að ég elska að spila fótbolta. Ég verð bara að gleyma þessum síðustu mánuðum mínum hjá PSG,“ segir Lucas Moura.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×