Erlent

Spánn mun greiða atkvæði með Brexit eftir samkomulag um málefni Gíbraltar

Sylvía Hall skrifar
Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar.
Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar. Getty/Pacific Press
Ríkisstjórn Spánar hefur komist að samkomulagi við Bretland og Evrópusambandið um málefni Gíbraltar og mun ríkisstjórnin því greiða atkvæði með útgöngusáttmála Bretlands. Þetta tilkynnti Pedro Sanchez forsetisráðherra fyrr í dag eftir fund með fulltrúum Evrópusambandsríkja í Brussel.

Á þriðjudag sagðist forsætisráðherrann ætla að greiða atkvæði gegn útgöngusáttmálanum ef Spánn fengi ekki aðkomu að málefnum Gíbraltar. Þá hafði hann einnig lýst því yfir að hann hygðist sniðganga fund leiðtoga aðildarríkja á morgun ef ekkert samkomulag myndi nást.

Evrópusambandið og Bretland samþykktu skilmála Spánverja og munu því viðræður um málefni Gíbraltar halda áfram eftir útgöngu Bretlands úr sambandinu þann 29. mars. Sanchez sagði samkomulagið gera Spánverjum kleift að leysa úr deilunni um landsvæðið sem hefur staðið yfir í yfir 300 ár en Gíbraltar hefur verið undir breskum yfirráðum frá árinu 1713.

Eins og áður sagði munu leiðtogar aðildarríkjanna kjósa um útgöngusáttmála Breta á morgun og var því mikilvægt að niðurstaða komst í deiluna varðandi málefni Gíbraltar. Þá bendir allt til þess að sáttmálinn verði samþykktur á fundi morgundagsins sem Theresa May, forsætisráðherra Breta, mun síðan leggja fyrir breska þingið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×