Enski boltinn

Ritchie tjáir sig um klúður ársins: Ég mun aldrei gleyma þessu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matt Ritchie.
Matt Ritchie. Vísir/Getty
Rafael Benitez, knattspyrnustjóri Newcastle United, gat hlegið að klúðri Matt Ritchie eftir leik en aðeins af því að Newcastle liðið hélt út í 2-1 sigri á Burnley. Hefði Burnley jafnað metin hefði örugglega verið allt annað hljóð í spænska stjóranum.

Matt Ritchie, kantmaður Newcastle United, átti örugglega klúður ársins til þessa í ensku úrvalsdeildinni í fyrrakvöld þegar hann brenndi af fyrir framan opnu marki.

Matt Ritchie ræddi klúðrið sitt í viðtali við BBC. „Þetta er skelfilegt, hræðilegt en svona er lífið og þetta bara fótboltinn,“ sagði Matt Ritchie.





„Ég hafði heppnina með mér í því að þetta skipti ekki máli þegar upp var staðið. Ég get því brosað að þessu en ég finn til inn í mér,“ sagði Ritchie.

„Þetta er örugglega klúður sem ég mun aldrei gleyma svo lengi sem ég lifi. Ég mun passa það að svona gerist ekki aftur,“ sagði Ritchie.

Ritchie segir að liðsfélagar hans í Newcastle, hafi strítt honum mikið í klefanum eftir leikinn. „Ég er viss um að það hættir ekkert í bráð,“ sagði Ritchie.

„Ég vil halda áfram og komast yfir þetta. Ég er sterkur karakter og passa upp á að þetta hafi ekki áhrif á mig. Ég hef lent í mótlæti á mínum ferli og þetta er bara eitt af minni gerðinni,“ sagði Ritchie.

Boltinn datt fyrir hann á markteignum fyrir framan opnu marki en hann skaut boltanum framhjá þegar miklu auðveldara var að setja hann í markið.

„Ég vil skora mörk og ég vil hjálpa liðinu mínu. Ég hefði gert þetta þægilegra fyrir okkur með því að skora. Ég gerði mistök en mörkin mín munu detta inn,“ sagði Ritchie.

Það má sjá þetta klúður Matt Ritchie í myndbandinu hér fyrir neðan en þar eru svipmyndir frá leiknum.



Klippa: FT Burnley 1 - 2 Newcastle







Fleiri fréttir

Sjá meira


×